Heildarvelta Valitor á síðasta ári nam 21,4 milljörðum króna, en rekstrarniðurstaða ársins 2018 var neikvæð um 1,9 milljarða samanborið við hagnað upp á um 900 milljónir árið á undan. Nettó tekjur félagsins námu 9,4 milljörðum á árinu 2018 sem er 5% aukning frá árinu á undan.

Eins og fyrir lá, hóf stærsti samstarfsaðili Valitor í færsluhirðingu að sinna þeirri þjónustu sjálfur í júlí og flutti þar með veltu sína frá Valitor. Þessi niðurstaða hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.

Síðastliðið ár einkenndist af miklum fjárfestingum Valitor í vöruþróun og markaðssókn en þar ber hæst alrásarlausn (omni-channel solution) Valitor að því er segir í fréttatilkynningu.

Valitor stendur vel að vígi á mjög áhugaverðum mörkuðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Bretlandi og á Írlandi sem og varðandi viðskipti við stærri verslanakeðjur í Evrópu segir jafnframt í tilkynningunni.

Niðurstaðan þó umfram áætlanir

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor segir að þrátt fyrir taprekstur hafi niðurstaða ársins verið umfram áætlanir og fjárhagsstaða félagsins sé sterk.

„Valitor er vaxtarfyrirtæki og framsækin vöruþróun er kjölfesta verðmætasköpunar og aðgreiningar okkar á markaði. Vaxtarstefna okkar er langtímahugsun og þess vegna fórnum við skammtímahagnaði fyrir öfluga sérstöðu á markaði,“ segir Viðar.

„Kauphegðun neytenda er að breytast hratt og við hjálpum kaupmönnum að fóta sig betur í þessu nýja umhverfi. Hjálpum þeim varðandi tæknilega hlið mála með alrásar (omni-channel) hugbúnaðarlausn okkar sem sameinar þjónustu fyrir snjalltæki, netviðskipti og þjónustu við búðarborðið. Jafnframt veitum við kaupmönnum ráðgjöf um það hvernig best er að færa sér þetta breytta umhverfi í nyt.”