Íslendingar ættu að draga verulega úr fjölda þeirra erlendu ferðamanna sem koma hingað til lands með skemmtiferðaskipum, að mati erlends ráðgjafa í ferðamálum. Þeir eyði litlu og taki upp mikið pláss.

„Þessir ferðamenn eru vampírur,“ segir Doug Lansky, ferðamálaráðgjafi, en rætt var við Lansky í kvöldfréttum RÚV í gær .

„Þeir sjúga blóð og menningu úr viðkomustöðum sínum. Þeir eyða litlum peningum og fara svo á næsta áfangastað. Þessir ferðamenn þjóna ekki hagsmunum ykkar.“

Fyrsta stóra skemmtiferðaskip sumarsins kom til Reykjavíkur í vikunni með 2.800 farþega um borð. Gert er ráð fyrir að um 150 þúsund slíkir ferðamenn komi til Íslands á þessu ári, sem er um 6% af þeim 2,4 milljónum ferðamanna spáð er að muni sækja landið heim. Þeir koma hingað til lands nær eingöngu yfir sumartímann.

Lansky segir farþega skemmtiferðaskipa ganga mjög á auðlindir og þvælast fyrir verðmætari gestum –svo sem hótelgestum. Þeir fjölmenni allir á sama tíma á einn stað, hverfa svo á brott og endurtaka leikinn á öðrum stað. Sérstaklega hafi það mikil áhrif í litlum bæjarfélögum.

„Þessir farþegar verja ekki miklu fé. Þeir taka bara mikið pláss. Þið þurfið að forgangsraða og umbuna bestu viðskiptavinunum eins og hvert annað fyrirtæki,“ segir Lansky.