Á næstu sex árum hyggst Orkuveita Reykjavíkur verja 25 milljörðum króna í framkvæmdir svo hægt sé keyra Hellisheiðarvirkjun á fullum afköstum.

Uppsett afl virkjana fyrirtækisins nemur rétt ríflega 430 megavöttum á ári. Langstærsti hlutinn kemur frá jarðvarmavirkjunum fyrirtækisins. Nesjavallavirkjun er 120 megavött og Hellisheiðarvirkjun 303 megavött. Vatnsaflsvirkjunin í Andakílsá er 8,2 megavött.

Uppsett afl segir ekki alla söguna því stundum eru virkjanir ekki keyrðar á fullum afköstum. Þegar um vatnsaflsvirkjanir er að ræða getur vatnsstaða í lónum valdið því að virkjun nær ekki fullum afköstum. Í jarðvarmavirkjunum geta minni afköst borhola valdið því að raforkuvinnslan dettur niður. Það er einmitt það sem hefur verið að gerast í Hellisheiðarvirkjun undanfarin ár.

„Þau jarðhitasvæði, sem voru hugsuð sem nægjanleg fyrir Hellisheiðavirkjun, hafa ekki reynst nógu góð og vinnslugetan á þeim er að dala, sem er alvarlegt mál," sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar í samtali við Viðskiptablaðið fyrir tveimur vikum. „Jarðhitasvæðin eru ekki eins sterk og haldið var í fyrstu. Þetta vissum við strax árið 2012, þess vegna tengdum við Hverahlíðarsvæðið við Hellisheiðarvirkjun. Upphaflega stóð til að byggja þar sjálfstæða virkjun."

Bjarni sagði ennfremur að til þess að viðhalda framleiðslunni þyrfti að verja 25 milljörðum króna á næstu sex árum í afla gufu og skila vinnsluvatninu aftur niður í jarðhitakerfið. Kostnaðurinn við að viðhalda vinnslugetunni er því meiri en sem nemur heildarkostnaði við byggingu fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar, þar sem uppsett afl verður 45 megavött.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .