Ríkisendurskoðun vill að því er þeir kalla gefnu tilefni upplýsa að Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, hafi hinn 19. september sl. verið settur seturíkisendurskoðandi til að annast endurskoðun Lindarhvols ehf. samkvæmt fréttatilkynningu frá embættinu.

„Eftir að fjármála- og efnahagsráðherra kynnti  ákvörðun sína um að tilnefna bróður ríkisendurskoðanda, Þórhall Arason, í stjórn Lindarhvols ehf. ritaði  ríkisendurskoðandi fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þann 28. apríl þar sem hann vakti athygli á tengslum sínum við Þórhall,“ samkvæmt tilkynningunni.

„Í bréfinu var bent á að þessi tengsl hefðu í för með sér vanhæfi ríkisendurskoðanda til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samnings Lindarhvols og fjármálaráðherra, líkt og lög mæltu fyrir um.

Jafnframt ritaði ríkisendurskoðandi forseta Alþingis bréf þann 12. maí þar sem hann lýsti sig vanhæfan af þessum sökum til að annast lögboðið eftirlit með Lindarhvoli ehf.

Með hliðsjón af framansögðu setti forseti Alþingis  Sigurð Þórðarson sem seturíkisendurskoðanda til að annast endurskoðun Lindarhvols ehf. og lögboðið eftirlit Ríkisendurskoðunar með samningi Fjármála- og efnahagsráðherra og Lindarhvols ehf. um sölu eigna sem ríkissjóður fékk sem stögugleikaframlag skv. nauðasamningum gömlu bankanna.“