Ríkisendurskoðun telur að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins standi ekki að öllu leyti undir því markmiði laga um heilbrigðisþjónustu að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluútekt Ríkisendurskoðunar.

Að mati Ríkisendurskoðunar eru meginástæðurnar vankantar á skipulagi í heilbrigðiskerfinu, takmarkaðar fjárveitningar til Heilsugæslunnar og skortur á aðhaldi með heilsugæslustöðunum.

Afleiðingarnar eru heft aðgengi almennings að þjónustu Heilsugæslunnar á dagtíma sem hefur meðal annars valdið því að fólk leitar iðulega á bráðamóttöku Landspítala með erindi sem Heilsugæslan gæti leyst. Jafnframt hefur þjónusta sérgreiningalækna aukist mjög á síðustu árum. Hvort tveggja hefur leitt til aukins heildarkostnaðar í heilbrigðiskerfinu og ófullnægjandi aðgengi að sérhæfðu fagfólki innan þess að mati Ríkisendurskoðunar.

„Ríkisendurskoðun beinir því til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að auka eftirlit með þjónustu og skilvirkni þeirra 15 heilsugæslustöðva sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu. Fylgjast þarf betur en nú er gert með biðtíma notenda eftir þjónustu einstakra stöðva og afköstum þeirra. Í nóvember 2016 fengu innan við helmingur þeirra sem leituðu til Heilsugæslunnar tíma hjá lækni innan tveggja daga þótt stefnt sé að því að 85% fái tíma innan þeirra tímamarka,“ leggur Ríkisendurskoðun meðal annars til.