Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir 490 milljóna rekstrarafgang Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins vera ákveðin batamerki.

Góðærið skýrir auknar skatttekjur

"Við sjáum að það skiptir miklu máli í þessu að skatttekjur eru verulega yfir áætlun, við erum náttúrulega með mjög háa skatta í borginni, útsvarið er í leyfilegu hámarki og svo framvegis. Hluti af þessu er líka að einn og hálfur milljarður af tekjuhliðinni kemur til vegna þess að tekjur vegna eftirálags útsvars komu að þessu sinni inn á fyrri helmingi ársins, en hafa yfirleitt komið á seinni helmingi ársins," segir Kjartan.

Skýrir Kjartan auknar skatttekjur vegna góðærisins í landinu. "Sveitarfélögin, eins og allir opinberir aðilar, njóta þess að það er mikill vöxtur í þjóðfélaginu."

Eignahækkun tekjufærð sem hefur engin áhrif á rekstur

Varðandi B-hlutann sem inniheldur samstæðureikninga allra félaga í eigu borgarinnar, þá kemur hækkun á fasteignamarkaði til að mynda inn.

"Þar skiptir mjög miklu máli tekjufærslan hjá Félagsbústöðum uppá 5,6 milljarða, það er fært sem auknar eignir og tekjur, vegna hækkana á fasteignamarkaði.  Félagsbústaðir eru eitt besta fasteignafélag landsins og það er verið að færa eignir þess félags upp út af hækkandi fasteignaverði, þannig að eignirnar aukast, og borgin tekjufærir það, en það í sjálfu sér hefur engin áhrif á rekstur eða efnahaginn, nema menn ætli sér að selja þessar eignir, sem enginn er að fara að gera," segir Kjartan.

Borgin of skuldsett

Kjartan leggur áherslu á að það þurfi að ná tökum á fjármálum borgarinnar.

"Borgin er of skuldsett, en alveg frá 2010 hefur sigið mjög á ógæfuhliðina. Það eru vissulega ákveðin jákvæð teikn á lofti í þessu uppgjöri, en það er samt langur vegur frá því að hægt sé að segja með einhverjum hætti að menn hafi náð tökum á rekstrinum," segir Kjartan sem vill sjá öðruvísi forgangsröðun og markvissari sparnaðaraðgerðir.

Lækka þarf útsvar

"Ég teldi mjög mikilvægt að í fjárhagslegri endurskipulagningu þá væri staðið þannig að málum að lækka skattana og lækka útsvarið þannig að íbúarnir nytu ávinningsins," segir Kjartan.

"Við sjáum það að forgangsröðunin er kolskökk hjá meirihlutanum, á meðan sumir hlutir eru vanmetnir, þá er verið að fara út í alls konar hluti sem eru óþarfi eða vitlausir bara, getum nefnt þrengingu Grensásvegar sem dæmi."

Vantar áhuga á að bæta rekstur

Segir hann meirihlutann gleyma því að hlutverk borgarinnar sé fyrst og fremst vera að sinna nærþjónustu við íbúanna.

"Það eru svo margar aðgerðir sem hægt væri að grípa til að bæta þennan rekstur, til dæmis er byggingarkostnaður mjög hár hjá borginni, sem þyrfti að brýna betur, svo mætti bjóða mun fleiri hluti út hjá borginni heldur en er gert og svo framvegis og svo framvegis," segir Kjartan.

"Ég held að það vanti bara hjá meirihlutanum svolítinn áhuga á því að reka borgina betur. Held það vanti einbeittan vilja til þess að bæta reksturinn og ákveðin áhuga á verkefninu. Maður sér til dæmis í borgarstjórninni, að það er ekki að frumkvæði borgarstjórnar mikið rætt um rekstur."