Vísitölufyrirtækið FTSE tók endanlega ákvörðun nú í haust um að skráð fyrirtæki á Nasdaq Iceland yrðu gjaldgeng í vísitölumengi þess frá og með september á þessu ári. Þrátt fyrir þá viðurkenningu sem í því felst segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, þó enn ýmislegt sem megi bæta.

„Skilaboðin sem við erum að fá frá FTSE Russell eru þau að við erum sett í vísitölumengið hjá þeim, en FTSE flokkar markaði í fjóra flokka eftir því hversu þróaðir þeir eru. Þótt við séum að koma inn í lægsta flokki, þá segir úttekt fyrirtækisins okkur það samt að okkur vantar í rauninni bara herslumuninn til að komast inn í næstefsta eða efsta flokk. Það sem vantar fyrst og fremst upp á er að stækka markaðinn heldur meira,“ segir Páll, og á þar við meira heildarmarkaðsvirði og fleiri stærri félög. „Þar myndi til dæmis skráning ríkisbankanna koma okkur vel áleiðis.“

FTSE gefur mörkuðum einkunn eftir 21 mismunandi þætti. Í 15 þeirra flokka uppfyllir íslenskur markaður skilyrði fyrir efsta flokk að fullu, í 5 þeirra að hluta, en í einum flokk kolfellur hann. Sá síðastnefndi er skipulegur afleiðumarkaður, eða öllu heldur skortur þar á. „Að mestu leyti er þetta í höndum okkar hjá Kauphöllinni og markaðsaðilum að breyta þessu. Það mun þó skipta máli bæði hvað ríkissjóður, sem eigandi bankanna ákveður að gera, og hvað löggjafarvaldið ákveður að gera í nokkrum lykilmálum, því hér vantar ennþá ákveðna þætti inn í löggjöfina sem er einfalt að greiða úr og myndi í raun og veru hjálpa okkur við að uppfylla að minnsta kosti 2-3 þessara skilyrða til viðbótar.

Við höfum metið það sem svo að ef það væri bara gengið rösklega til verks þá væri – einhvern tímann á næstu 5-10 árum – hægt að koma þessum markaði í efsta flokk meðal þeirra aðila sem eru að gefa mörkuðum einkunn. Það hefði einfaldlega gríðarleg áhrif. Þetta væri ómetanlegt fyrir fjármögnun íslenskra fyrirtækja. Til dæmis teljum við að það sé raunhæft að horfa til þess á næstu árum að setja hér á stofn afleiðumarkað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .