Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ og tók hún við starfinu í mars 2015.  Það sem starfið mitt snýst um er yfirumsjón með daglegum rekstri skrifstofunnar og starfsmannahaldi og að sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig. Það sem er efst á baugi þessa dagana er undirbúningur karlalandsliðsins fyrir úrslitakeppnina í Frakklandi, en þátttaka í keppninni er eitt stærsta verkefni sem KSÍ hefur tekist á við.

Þegar Klara er spurð að því hvers vegna KSÍ hafi orðið fyrir valinu þegar kom að starfsvettvangi segir hún að áhugamálið hafi leitt sig þá leið. „Ég æfði fótbolta, var þjálfari og var í stjórn míns félags sem er Víkingur. KSÍ auglýsti starfið og ég sótti um þar sem þetta er áhugamálið mitt,“ segir Klara.

Klara starfar einnig fyrir knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, sem eftirlitsmaður og var til dæmis nýverið tilefnd sem eftirlitsmaður á úrslitaleikinn í Meistaradeild kvenna en þar ber hún ábyrgð á því að leikurinn fari fram eftir settum reglum.

Klara vonast til að karlalandsliðinu gangi sem best á EM. „Við höfum góða leikmenn og starfsmenn og því er ég mjög bjartsýn,“ segir Klara að lokum.

Ítarlegt viðtal við Klöru er í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .