Katrín Olga Jó­hannesdóttir steig á dögunum til hliðar sem stjórnarformað­ur Já og seldi hlut sinn í fé­laginu eftir að hafa komið því á laggirnar fyrir tólf árum. Hún lætur þrátt fyrir það enn til sín taka í íslensku viðskiptalífi. Hún er formaður Viðskiptaráðs og situr í stjórnum Icelandair Group og Ölgerð­ arinnar. Katrín Olga lítur til baka á tíma sinn hjá Já með hlýju en er spennt fyrir nýjum ævintýrum. Hún hefur sterkar skoðanir á því sem má fara betur í íslensku samfélagi og viðskiptalíf.

Hvernig líturðu til baka á tíma þinn hjá Já og hvers vegna ákvaðstu að breyta til?

„Ég lít til baka til þessa tíma með góða tilfinningu í hjarta. Fyrirtækið var stofnað út frá Símanum árið 2005 og við það að gera það að sjálfstæðri einingu fékk það að vaxa og dafna. Í raun hefur Já verið barnið mitt frá stofnun og var meira að segja stofnað á afmælisdaginn minn.

Það sem mér finnst skemmtilegt við lífið er að það er alltaf fullt af áskorunum og það sama hefur átt við um starf mitt sem stjórnarformaður Já. Vegna breytinga í neyslumynstri hafa verið stanslausar áskoranir hjá fyrirtækinu. Þegar það var stofnað voru engar auglýsingar á netinu og störfin voru fyrst og fremst þjónustustörf.

Nú þegar ég fer frá fyrirtækinu hefur það þróast úr þjónustufyrirtæki yfir í tækni og markaðsfyrirtæki þar sem stærstur hluti starfsfólksins er sérfræðingar.

Þetta segir allt um hversu mikil breyting hefur orðið á fyrirtækinu, enda er viðskiptamódelið sífellt í ögrun. Prentaða símaskráin er hætt að koma út, 1818 er núna lúxusþjónusta enda settum við á markað smáforrit sem dró úr eftirspurn eftir þeirri þjónustu.

Þessi tólf ár hjá Já hafa verið einstaklega skemmtilegur tími, með fullt af áskorunum. Síðan kemur að þeim tímapunkti i lífi manns þar sem maður hugsar með sér hvort maður ætli að halda áfram á þessari braut eða ætlar mað­ ur að finna eitthvað annað, sem þróar mann og þroskar. Ég mat það svo að núna væri rétti tíminn til að gera eitthvað annað. Ég kveð Já sátt með gleði í huga. Auðvitað er söknuður líka og þá mest til fólksins sem hefur starfað með mér, sumt af því í öll þessi 12 ár og hefur tekið þátt í að móta mig sem manneskju. Að hafa fengið að þróa Já til þess fyrirtækis sem það er í dag hafa verið forréttindi, sem ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í.“

Hvernig horfir íslenskt viðskiptalíf almennt við þér?

„Mér finnst megi vera meira af langtímahugsun og framsýni í íslensku við­ skiptalífi og íslensku samfélagi almennt. Við horfum og mikið til skamms tíma á svo mörgum sviðum. Ég horfi til annarra þjóða eins og Danmerkur, sem virð­ast vera komin lengra en við að horfa til lengri tíma. Danir ákváðu t.d. fyrir 20 árum að þeir ætluðu að vera „grænt“ land og nú eru þeir komnir þangað eftir tveggja áratuga markvissa vinnu. Pólitíkin hér á landi horfir of mikið til fjögurra ára tímabila í senn, á meðan mér finnst að kallað eftir því að pólitíkin horfi til lengri tíma og fari að setja langtímastefnu, jafnvel í samstarfi við stjórnarandstöðu þannig þegar það verða breytingar við stjórnvölinn, er ekki verið að kollvarpa öllu.

Hægri og vinstri pólitík verður sjálfsagt alltaf til staðar en ég held það séu flestir orðnir þreyttir á öfgunum þar og vilji frekar sjá hvað er sameiginlegt hjá þessari þjóð – við sjáum gott gengi flokks Macrons í Frakklandi, sem segist vera bæði hægri og vinstri flokkur – kannski er það sem koma skal. Ég hef sagt að við á Íslandi séum sammála í 80% tilfella: Við viljum t.d. gott heilbrigðiskerfi og gott menntakerfi. Síðan getum við haft 20% blæbrigði, en finnum samnefnarann og vinnum saman

Það sama á við í viðskiptalífinu. Mér finnst að stefnumótun sé á vissan hátt ekki gert nógu hátt undir höfði í íslenskum fyrirtækjum. Mér finnst að við eigum að horfa miklu meira til mótunar langtímastefnu. Auðvitað þarf að horfa í reksturinn, en það hefur verið horft mest í hann og ég segi að góð stefnumótun skili góðum rekstri.“

Viðtalið við Katrínu Olgu má lesa í heild sinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.