Birgir Ómar Haraldsson, einn þriggja eigenda Norðurflugs, segir að hann hafi tjáð sig um það opinberlega fyrir ári að farið væri að hægja á ferðamannastraumnum og verið álítinn svartsýnissauður fyrir vikið.

Eins og Viðskiptablaðið segir frá er fyrirtækið sem hann stýrir þó að bæta við sig 200 milljóna króna lúxusþyrlu sem hann segir að félagið hafi getað lagt fyrir kaupunum á, síðustu ár í betra árferði. „En það er farið að hægjast snarlega á þessu og eftir því sem lengra hefur liðið inn á þetta ár hef ég grun um að að ég gæti líklegast flokkast sem bjartsýnissauður á sínum tíma,“ segir Birgir.

„Ég held að við séum að horfa fram á allt annað umhverfi og miklar breytingar í ferðamannageiranum hérna í haust. Við Íslendingar erum náttúrulega búnir að vera gráðugir eins og andskotar, og er það rétt hjá Pétri Óskarssyni hjá Katla Travel að við Íslendingar erum sjálfir búnir að eyðileggja orðstír landsins.

Við erum að segja að ferðamaðurinn sé að trampa niður náttúruna okkar og láta það berast út að Íslendingar séu farnir að líta ferðamennina hornauga. Þegar hinn meðvitaði og náttúruverndarsinnaði ferðamaður heyrir það hugsar hann sér, ekkert mál, við förum þá bara eitthvert annað. Það er mikill misskilningur að Ísland sé eini staðurinn með fallega náttúru.“

Dýrasta ferðin slagar í 400 þúsund

Þegar heimasíða Norðurflugs er skoðuð sést að dýrustu ferðir félagsins eru á hátt í 400 þúsund krónur á farþega, en það er um fimm tíma ferð á Jökulsárlón.

„Þegar við vorum að teikna upp þessa ferð á Jökulsárlón þá ákváðum við að henda henni inn og prófa eitt sumarið, en við Íslendingarnir í þröngsýni okkar héldum að enginn myndi tíma að borga þetta,“ segir Birgir en hann segir fullt af fólki hins vegar taka þessa ferð og sumir jafnvel leigi þyrluna alveg til að hafa hana yfir daginn í bæði þá ferð og aðrar.

„Það eru þá aðallega erlendir aðilar sem nota þyrlur til að mynda til að fara í laxveiði, eða eru að biðja um að lenda á ýmsustu stöðum og skoða sig um, þetta er voðalega mismunandi.

Ég er nú bundinn trúnaði við okkar viðskiptavini en ég get sagt frá því að fyrir nokkru kom kona frá New York með morgunflugi en var komin með okkur upp í Landmannalaugar eftir hádegi. Þegar þyrlan lenti og hún steig út brotnaði hún saman og grét í geðshræringu. Hún hafði aldrei upplifað álíka víðáttu og þögn áður.“

Lúxusferðamennska lengra verkefni

Þrátt fyrir þetta segir Birgir að uppistaða ferðamanna sem nýti sér þjónustu fyrirtækisins séu ekki þessir lúxusferðamenn sem mikið eru í umræðunni.

„Meirihlutinn af okkar kúnnum eru bara þessir venjulegu farþegar sem koma til Íslands með lággjaldaflugfélögunum. Það að ætla að markaðssetja landið sem einhverja lúxusvöru, eins og Mariott hótelið og fleiri eru dæmi um, er lengra verkefni en við höldum.
Langflestir farþegarnir sem koma hingað til lands koma með þessum íslensku félögum og ýmsum lággjaldafélögum, og þau eru ekki að koma með ríka einstaklinga í stórum stíl.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .