Netverslunarfyrirtækið AHA varð á seinasta ári fyrst fyrirtækja í heiminum til að hefja heimsendingar á vörum og mat með drónum „Íslendingar eiga í raun og veru aðeins tvo möguleika þegar kemur að tækninýjungum; annað hvort erum við fyrstir eða síðastir,“ segir Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri AHA.

Frá flugtaki við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Skútuvogi að afhendingu við núverandi lendingarstað í Grafarvogi líða um fjórar mínútur. „Þegar kerfið fer að vinna á fullum afköstum teljum við hverja sendingu verða 60% ódýrari en sending með hefðbundnum hætti, auk þess sem drónarnir eru rafknúnir þannig að þessi aðferð er langtum umhverfisvænni,“ segir Maron. Í sumar verður tekið stórt stökk við afhendinguna. „Við getum ekki flogið að görðum allra viðskiptavina en við getum fjölgað afhendingarstöðum til muna, að því gefnu að öll leyfi fáist, og í stað þess að dróninn lendi sígur varan niður hjá viðskiptavininum í taug úr 8-15 metra hæð, sleppir vörunni og flýgur í burtu að því búnu.“

Stöðugt að auka þekkingu á drónum

Ísraelska fyrirtækið Flytrex útvegar drónana og hugbúnaðinn sem þarf til að stýra þeim. Fyrirtækið hefur lýst yfir metnaði til að verða í fararbroddi í drónasendingum á heimsvísu. Flytrex framleiðir þó ekki drónana sjálft heldur einbeitir sér að þróun hugbúnaðarins til að stýra þeim. „Við vinnum náið með þeim enda eru þeir að nota tækifærið til að þróa búnaðinn samhliða okkar sendingum, við þær aðstæður sem eru hérlendis,“ segir Maron. „Við erum stöðugt að auka þekkingu okkar innan fyrirtækisins í drónageiranum , erum nú þegar með sex þjálfaða starfsmenn í að fljúga drónunum og stýra þeim og munum þjálfa fleiri í sumar.“

Aha.is notar tvo sjálfstýrða dróna við flutningana og síðan flug hófst í ágúst sl. eru sendingar hátt í 400 talsins. „Við renndum alveg blint í sjóinn um viðtökurnar og þorðum ekki að gera okkur vonir um eftirspurnina fyrirfram , því að aðaláherslan hjá okkur var að læra á tæknina, tryggja öryggismálin og sýna opinberum aðilum og öðrum að þetta væri ekki aðeins raunhæft heldur líka ákjósanlegt,“ segir Maron. „Við hefðum eflaust getað annast fimmfalt fleiri sendingar, en það er óvíst að það hefði verið skynsamlegt á meðan við vorum að þjálfa mannskap og þróa kerfið. Öryggishliðin er orðin afar sterk hjá okkur og þá tekur við að byggja upp allt sem snýr að kerfinu að öðru leyti.“

Nánar er fjallað um málið í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar , þar sem sjónum er meðal annars beint að fjórðu iðnbyltingunni. Hægt er gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] .