„Vottunin er vegna þess að við þurfum að staðfesta það við þá sem kaupa fiskinn að við séum að gera það sem við sögðumst ætla að gera,“ segir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur hjá SFS, sem er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í umhverfismerkingum og vottun ábyrgra fiskveiða, en Íslendingar hafa lengi verið leiðandi á því sviði.

„En þegar farið er að hafa endaskipti á hlutunum og farið að votta veiðar sem ekki uppfylla kröfurnar, þá er það alvarlegt.“

Kristján hefur unnið að vottunarmálum í meira en tuttugu ár, bæði á alþjóðlegum vettvangi og hér heima. Hann gegndi meðal annars forystu í norrænum starfshópi á þessu sviði, vann að mótun leiðbeininga Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um umhverfismerkingar og átti stóran þátt í þróun íslenska staðalsins Iceland Responsible Fisheries (IRF).

Hann hefur jafnan lagt mikla áherslu á að vel sé að verki staðið og menn stytti sér ekki leið í vottunarstarfinu.

Markaðsþrýstingur
Vottun sjálfbærra og ábyrga fiskveiða er farin að gegna æ mikilvægara hlutverki við markaðssetningu sjávarafurða. Víða setja kaupendur sjávarafurða seljendum skilyrði um að umhverfisvottun fylgi vörunni.

Þekktasta fyrirtækið á því sviði er Marine Stewardship Council (MSC), sem fyrir tuttugu árum hóf að votta sjávarafurðir og hefur náð yfirburðastöðu þrátt fyrir að önnur umhverfismerki standi seljendum og kaupendum sjávarafurða til boða. Þar á meðal er íslenska umhverfisvottunin frá IRF.

Hugsunin á bak við MSC var frá upphafi sú að nota markaðinn til að setja þrýsting á fyrirtæki í sjávarútvegi og fá þau þannig til að ganga vel um auðlindina. Kristján segist þó ekki telja að þessi markaðsþrýstingur hafi haft afgerandi áhrif á þróun í íslenskum sjávarútvegi.

„Út frá mínum bæjardyrum séð er það þannig að við eigum að hafa hlutina í lagi. Það eru okkar hagsmunir. Og það eru alþjóðlegar kröfur sem Íslendingar hafa staðið að því að búa til sem við þurfum að fylgja.“

Þessar alþjóðlegu kröfur er meðal annars að finna í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, sem gerður var 1982 og tók gildi tveimur árum síðar, en ekki síst í Siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum sem gerðar voru árið 1995 og hafa æ síðan verið grunnurinn að öllu vottunarstarfi í sjávarútvegi.

Staðfesting þriðja aðila
„Allt spinnst þetta út frá hugsun okkar um fiskveiðistjórnun og vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Vottun er svo eitthvað sem kemur eftir á til að staðfesta okkar skilaboð og skilaboð sjávarútvegsins, þar sem þau eiga við, um að hlutirnir séu í lagi. Og þá færðu þriðja aðila til að staðfesta það.“

Kristján segir vottun í sjávarútvegi að mörgu leyti frábrugðna gæðavottun annars staðar í atvinnulífinu.

„Venjulega er það þannig þegar einhver er að biðja um vottun á einhverju þá er það einkaaðili sem sækir um vottun á því að hans starfsemi, sem hann hefur fulla stjórn á sjálfur, uppfylli kröfur sem eru í stöðlum og hann vill fá vottun á því. Þá skiptir það máli að þriðji aðili komi og staðfesti þau skilaboð að þetta sé í lagi. En þegar það eru fiskveiðar sem þarf að votta þá eru það ekki aðeins þeir sem eiga og reka fyrirtækin sem þurfa að uppfylla kröfurnar, heldur eru það ríkin sem stjórna fiskveiðunum sem þurfa að uppfylla kröfurnar. Þannig að vottunin er ákveðin starfsemi á markaði sem er til þess gerð að beita fullvalda stjórnvöld þrýstingi varðandi aðgerðir sínar í fiskveiðistjórnun. Þetta er sem sagt ekki á forræði einstakra fyrirtækja.“

Áhyggjuefni
Kristján segir helsta áhyggjuefnið alltaf hafa verið að menn hafi endaskipti á hlutunum. Telji vottunina koma fyrst og lagfæringarnar eftir á.

„Við Íslendingar höfðum auðvitað verið að því áratugum saman að efla og bæta fiskveiðistjórnun, að læra af reynslunni og koma okkur upp skynsamlegri nýtingarstefnu fyrir sem flestar fisktegundir. Það er ekki eitthvað sem vottunarfólk hefur gert.“

Hann tekur skýrt fram að hann hafi engan áhuga á að gagnrýna frammistöðu einstakra vottunarfyrirtækja, heldur verði allir að halda sig við sömu grundvallarreglurnar.

„Hugsunin í því að setja alþjóðlegar reglur og gera kröfur var sú að vottun væri staðfesting eftir á. Hún ætti að nýtast mönnum og gagnast á markaði. En hún mætti ekki verða viðskiptahindrun. Það er eitt af prinsippunum sem þetta byggist á. Vottunin ætti þá að vera tækifæri fyrir þá sem standa sig best. En veruleikinn er bara töluvert mikið annar,“ segir Kristján.

„Það er eins og krafan til vottunar og krafan til breytingar og úrbóta sé sett á þá sem standa sig best, og aðrir í heiminum fá vottun án þess að þurfa að standa sig.“

Allir vilja vottun
Þarna er kominn upp vandi sem Kristján segir ekki mega líta framhjá.

„Hugmyndin var sú að einungis þeir sem stæðu sig vel fengju vottun og síðan gætu þeir merkt vörur sínar með þessu. En það er búið að snúa þessu við, núna verða allir að fá vottun. Og í einhverjum mæli er staðan orðin þannig að það fá allir vottun. Og þá kemur spurningin, ef allir eiga að fá vottun, hvað verður þá um kröfurnar?“

Krafan um að allar sjávarafurðir þurfi að vera vottaðar á markaði sprettur ekki síst af þrýstingi á þá sem selja afurðirnar til neytenda.

„Það er svo sem erfitt að segja til um það, en við skulum bara orða það þannig að þeir sem ráða því hvaða vörur komast í hillur verslana, þeir sem eiga verslanirnar sem sagt, þeir eru að verja sig fyrir gagnrýni. Þannig að þetta er tæki fyrir þá. Þar með er áherslan komin á þann endann á virðiskeðjunni, í staðinn fyrir að vera á þeim endanum á virðiskeðjunni þar sem starfsemin er sem á að votta.“

Samkeppni
Hér á landi var Iceland Responsible Fisheries komið á fót árið 2008, meðal annars til að veita MSC samkeppni, en það skref átti sér langan aðdraganda. Fyrsta vottunin var vottun þorskveiða í desember 2010.

„Það hafði náttúrlega verið alþjóðleg umræða um það í áratugi hversu alvarlegt það er þegar fiskistofnar eru ofveiddir. Við getum vísað í stofna eins og þorsk við Nýfundnaland, norsk-íslenska síldarstofninn og fleiri dæmi. Þetta er auðvitað alvarlegt mál. Þess vegna eru stjórnvöld og samfélögin og sjávarútvegurinn að vinna í þessu. Við gerum alþjóðasamninga um það hvað við eigum að gera, við erum að þróa fiskifræðina þannig að við skiljum betur, við þurfum að þróa ráðgjöfina og stjórntækin og allan pakkann, þannig að við vitum hvað við erum að gera. Vottunin kemur bara eftir á.“

Kröfur gerðar til vottunar
Kristján segist hafa frá upphafi tekið þá afstöðu að sjávarútvegurinn geti aldrei komið sér undan því að láta votta afurðina.

„Ég sagði þetta alltaf hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem ég fékk það hlutverk að vinna í þessu hjá FAO, og þá benti ég mönnum á að við erum ekkert hér til að ákveða hvort það verður vottunarstarfsemi á þessu sviði,“ segir Kristján.

„Spurningin er miklu fremur sú hvort það sé hægt að gera þær kröfur til vottunaraðila að þeir fari eftir leiðbeinandi reglum frá Sameinuðu þjóðunum þar sem menn hafa komið saman og allir fengið tækifæri til að hafa áhrif á þessar leiðbeinandi reglur. Þetta var lykillinn, að stjórnvöld væru að fara eftir þeim grunnreglum í fiskveiðistjórnun sem þau sjálf hafi samþykkt á alþjóðavettvangi, ekki nýjum reglum einhverra úti í bæ sem vilja leiða þau út af sporinu.“

Hefur haft sýnileg áhrif
„Við förum síðan af stað með verkefnið hjá Fiskifélagi Íslands í samvinnu við stjórnvöld í árslok 2006 vegna þess að við teljum mikilvægt að búa til vottunarkerfi og vinna að faglegri vottun þriðja aðila út frá staðli eftir kúnstarinnar reglum sem uppfyllir alþjóðlegu kröfurnar, bæði til þess að Íslendingar séu þá með þetta tæki á markaði, menn geti bara komið og skoðað þetta hjá okkur, og líka til þess að sýna mönnum að það sé vel hægt að vinna eftir þessum reglum og gera málefnalega og góða vottun.“

Kristján segir að hver og einn verði svo að dæma um það hvernig til hefur tekist.

„En ég get alveg leyft mér að fullyrða tvennt. Það sem við gerðum hefur haft sýnileg áhrif, og að mínu viti mikilvæg, á það hvernig aðrir standa að vottun í dag, og það hefur líka klárlega haft þau áhrif að veita aðhald í ýmsum skilningi, þar með talið á þann kostnað sem menn þurfa að bera af vottun.“