Svo virðist sem að bankarnir séu orðnir varfærnari en áður þegar kemur að lánveitingum til hótelverkefna. Þeir hafa til að mynda hert kröfur um eigið fé, gera strangara áhættumat og leggja jafnframt mat á kostnaðinn sem felst í því að breyta hótelum í íbúðir, áður en þeir lána til hótelverkefna að því er kemur fram í ítarlegri grein Markaðarins , fylgirits Fréttablaðsins um málið.

Almennt hafa bankarnir „stigið á bremsuna“ að sögn viðmælenda. Einnig er tekið fram að bankarnir séu vandlátari en áður og lána ekki lengur í hvað sem er. Þó eru bankarnir ekki hættir að lána fé til hótela. Rótgrónar hótelkeðjur sem eru vel tryggðar eiga ekki erfitt með að fá lánsfé, en ólíka sögu er að segja um minni fyrirtæki sem eru að hasla sér völl í bransanum.

Margir fjárfestar hafa áhyggjur af mögurlegri offjárfestingu í hótelum á síðustu árum samkvæmt heimildarmönnum Markaðarins, en ofris krónunnar og boðuð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna úr 11 prósentum í 22,5 bætir ekki úr skák. Annar viðmælandi blaðsins sem þekkir vel til útlána viðskiptabankanna segir bankana ekki lengur „spenna bogann hátt þegar komi að lánveitingum til hótelframkvæmda. Ef að kostnaðurinn er talinn vera of mikill, og verkefnið of áhættusamt, haldi bankarnir að sér höndum.