Merkja má aukna bjartsýni varðandi efnahagsumhverfið meðal íslenskra fjármálastjóra, en meiri varkárni gætir varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Kemur þetta fram í niðurstöðum fjármálastjórakönnunar ráðgjafarsviðs Deloitte meðal stærstu fyrirtækja á Íslandi. Tilgangur hennar er að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og efnahagsumhverfisins.

Þessi könnun er gerð tvisvar á ári og er þetta í fjórða sinn sem könnunin er framkvæmd. Sendur var spurningalisti til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

Aðspurðir telja um 83% fjármálastjóra að hagvöxtur muni aukast á næstu tveimur árum en fyrir einu ári síðan töldu um 57% fjármálastjóra von á auknum hagvexti.

Bjartsýni ríkir um hlutabréfamarkaðinn og telja fjármálastjórar að Úrvalsvísitala Kauphallarinnar muni hækka nokkuð á næstu sex mánuðum.

Hafa áhyggjur af kjarasamningum og vaxtastigi

Niðurstöður sýna að áfram er ákveðin óvissa í rekstrarumhverfi fyrirtækja og að fjárhagslegar horfur eru óbreyttar.

Helstu ytri áhættuþættir í rekstri fyrirtækja sem voru nefndir eru áhrif kjarasamninga, vaxtastig og verðbólga. Í kjölfar síðustu vaxtahækkunar Seðlabankans í byrjun nóvember telja 97% fjármálastjóra stýrivexti of háa.

Meirihluti fjármálastjóra telur að mikið framboð af lánsfé sé til staðar en að kostnaður við lánsfé sé hár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .