Steingrímur J. Sigfússon og þrír aðrir þingmenn í stjórnarandstöðu hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að gerðar verði þjóðhagsáætlanir til lengri tíma. Í því skyni verði útbúin spálíkön sem eigi að reyna að spá fyrir um líklegar aðstæður á Íslandi allt að hundrað árum liðnum. „Vandaðar langtímaáætlanir geta haft mikilvæga þýðingu fyrir hagstjórn og aðra ákvarðanatöku.

Gagnaöflun vegna þeirra verður til þess að vitneskja fæst um auðlindaforða samfélagsins eignir þess í efnislegum og óefnislegum gæðum og borin eru kennsl á ógnir og sóknarfæri eftir því sem unnt er,“ segir í tillögunni. Í umsögn Seðlabanka Íslands er hins vegar lýst yfir efasemdum um ágæti tillögunnar. „Ástæða er til að vara við ofurtrú á getu jafnvel færustu sérfræðinga til að spá fyrir um framvindu efnahags- mála áratugi fram í tímann eða getu stjórnvalda til að gera áætlanir um þá framvindu. Hugtakið áætlun er því e.t.v. ekki heppilegt í þessu samhengi,“ segir í umsögn Seðlabankans.