Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir í samtali við sjónvarpsstöð Bloomberg að hann muni segja starfi sínu lausu ef gríska þjóðin samþykkir tillögur lánadrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Syriza flokkurinn vonast til þess að Grikkir segi nei. Þar með yrði neyðarsamningi sem Grikkland og lánadrottnar gerðu í síðustu viku hafnað. Samkomulag hafði náðst en öllum að óvörum ákvað forsætisráðherrann Alexis Tsipras að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hann var í raun ekki sáttur við samninginn.

Ástandið í Grikklandi er skelfilegt. Bönkum hefur verið lokað og takmörk eru fyrir því hversu mikið fólk getur tekið út í hraðbönkum. Er verið að reyna að koma í veg fyrir allsherjar bankaáhlaup, enda eru grískir borgarar logandi hræddir um peningana sína. Leiða má líkur að því að ef Grikkir kjósa nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni muni þeir hverfa á brott úr Evrusvæðinu.

„Ef þau kjósa já, þá munum við skrifa undir samninginn. Við gætum þurft að endurskipuleggja stjórnina því sumir okkar munu ekki geta kyngt þessu. Ég mun ekki taka þátt í öðrum gálgafresti sem er bara til þykjustu,“ sagði Varoufakis við Bloomberg.

„Ég mun ekki vera með í þessu en ég mun aðstoða þann sem tekur þetta að sér. En við græðum ekkert á vangaveltum.“

Varoufakis er afar harður á því að skrifa ekki undir þýðingalausa samninga. Aðspurður hvort hann myndi skrifa undir samning sem gengur ekki út á það að endurfjármagna skuldir Grikklands svaraði hann: „Ég myndi frekar skera af mér höndina.“