Vaðlaheiðargöng hf. vinna nú að því í samvinnu við Norðurorku hf. að beisla kaldavatnið sem valdið hefur gangagerðarmönnum trafala síðustu mánuði frá því að það fór að streyma úr misgengi undir heiðinni.

Stefán H. Steindórsson sviðstjóri veitu- og tæknisviðs Norðurorku segir í Morgunblaðinu að vatnsmagnið úr göngunum geti fullnægt allt að helmingi vatnsnotkunar Akureyringa.

„Það er miðað við að taka þarna 70 lítra á sekúndu. Þeir verða notaðir fyrir almenning á svæðinu,“ segir Stefán en stefnt er að því að tengja vatnið við vatnsveitu Akureyrar árið 2020.

Fyrirtækið hefur þegar gert ráðstafanir til að safna vatninu saman þar sem það sprettur úr misgenginu. Jafnframt hefur safnþró verið steypt og verður vatnið leitt úr henni 5,4 kílómetra leið út úr göngunum. Þaðan þarf að leiða vatnið 4 til 5 kílómetra til Akureyrar.