*

mánudagur, 20. maí 2019
Innlent 22. september 2018 19:01

Vatnsverksmiðja endaði í Íshellu

Verktaki er langt kominn með að endurreisa yfir 7.000 fermetra húsnæði sem hýsa átti átöppunarverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi í Hafnarfirði.

Ingvar Haraldsson
Hannes Þór Baldursson, stjórnarformaður Móabergs.
Haraldur Guðjónsson

Búið er að rífa yfir 7.000 fermetra húsnæði sem hýsa átti átöppunarverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi og flytja í Hafnarfjörð þar sem það fær senn nýtt hlutverk. Félagið Móabyggð keypti húsnæðið árið 2015 af þrotabúi félagsins Icelandic Glacier Pro-ducts, með að markmiði að rífa það og flytja á höfuðborgarsvæðið. Hannes Þór Baldursson, stjórnarformaður Móabyggðar, segir að hafist hafi verið handa við að rífa húsið í byrjun sumars.

Nokkurn tíma hafi tekið að fá öll tilskilin leyfi fyrir niðurrifinu frá því að Móabyggð eignaðist það árið 2015. Að lokum hafi það gengið í gegn eftir nokkurt þref við bæjaryfirvöld í Snæfellsbæ. Unnið að því að endurreisa það við götuna Íshellu í Hellnahverfinu í Hafnarfirði og segir Hannes að vinnu við það miði vel. Halda á ytri ramma hússins en hugsanlega verði gerðar einhverjar útlitsbreytingar, til að mynda á gluggum og hurðum. Búið er að auglýsa húsið til sölu eða leigu. Hannes bendir á að húsið sé líklega það stærsta hús sem rifið hafi verið og endurreist hér á landi.

Átti að skapa tugi starfa

Húsnæði átöppunarverksmiðjunnar var reist árið 2009 til 2011 af félaginu Iceland Glacier Product. Árið 2007 gerði félagið 95 ára samstarfssamning við Snæfellsbæ árið um nýtingu vatnsréttinda í sveitarfélaginu. Gert var ráð fyrir að verksmiðjan gæti skapað 40-50 störf í sveitarfélaginu. Forsprakki verkefnisins var hollenski fjárfestirinn  Otto Spork. Á meðan unnið var að verkefninu voru eignir vogunarsjóða í eigu Spork frystar af yfirvöldum í Kanada, sem grunaður var um fjármálamisferli. Verðbréfaeftirlit Ontario-ríkis í Kanada  dæmdi  Spork, ásamt dóttur hans, Natalie Spork, og mági, Konstantino Ekonomidis fyrir  verðbréfasvik árið 2012, og  var þeim gert að greiða  jafnvirði um 170 milljónir króna í sekt og skila fjárfestum hundruðum milljóna í oftekin gjöld.

Þá var þeim bannað að eiga viðskipti með verðbréf. Spork  var talinn hafa stórlega ýkt virði og ávöxtun fjárfestinga sinna. Þannig hafi hann safnað  milljörðum  króna í fjárfestingasjóði en sjálfur tekið tugi milljóna í þóknanir og umsýslugjöld. Rekstur sjóðsins hafi svo litlu hafi skilað fjárfestum.

Íslenska félagið Iceland Glacier Products var svo lýst gjaldþrota í árslok 2011. Þá var samningum Snæfellsbæjar við Iceland Glacier Products slitið vegna vanefnda félagsins. Lýstar kröfur námu um hálfum milljarði króna samkvæmt frétt RÚV en innheimtur kröfuhafa voru óverulegar.

Nýtt félag tók við verkefninu

Áform um átöppunarverksmiðju lögðust þó ekki alfarið af því eftir gjaldþrot Iceland Glacier Products. Snæfellsbær gerði samning við nýtt félag, IV Iceland, um vatnsréttindin, en það var sagt í eigu breskra fjárfesta.  Félagið lét byggja mun minna húsnæði, um 1.100 fermetra undir átöppunarverksmiðju á Rifi. Þá lýsti það um tíma áhuga á að kaupa húsnæðið þrotabús Iceland Glacier  Products án þess að samningar um það næðust.

Nýja húsnæðið var sagt fullbúið að utan og einungis ætti eftir að koma fyrir vélbúnaði þar áður en framleiðsla hæfist. IV Iceland stóð hins vegar ekki við framkvæmdaáætlun þrátt fyrir ítrekaða fresti. Verksmiðjan var því aldrei kláruð og að lokum rann verkefnið út í sandinn. Félagið var lýst gjaldþrota árið 2016 og lauk skiptum þess fyrir rúmu ári en alls námu kröfur 24 milljónum króna.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim