Samanlagður hagnaður stóru vátryggingafélaganna þriggja – Vátryggingafélags Íslands (VÍS), Sjóvár-Almennra trygginga og Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) – jókst um rúmlega fimmtung árið 2016 frá sama tímabili árið áður og nam rúmlega 6,7 milljörðum króna. Með fjórða stærsta tryggingafélagi landsins, Verði, nam samanlagður hagnaður 7,2 milljörðum. Þegar afkoma einstakra félaga er skoðuð jókst þó aðeins hagnaður Sjóvá milli ára á meðan hagnaður VÍS, TM og Varðar dróst saman.

Ástæðan fyrir hagnaðarsamdrættinum er fyrst og fremst rakin til lakari afkomu af fjármálarekstri. Það væri þó villandi að segja að afkoma tryggingafélaganna hafi versnað árið 2016 frá fyrra ári, því rekstrarafkoma félaganna af vátryggingastarfsemi stórbatnaði; heildariðgjöld uxu hraðar en tjónakostnaður.

Vátryggingahagnaður eykst

Vátryggingafélög stunda tvenns konar starfsemi til að tryggja einstaklinga og fyrirtæki gegn tjóni: sölutryggingar (vátryggingarekstur) og fjárfestingar (fjármálarekstur).

Í sölutryggingum ákveða félögin hvaða áhættu þau tryggja gegn tjóni og reikna út iðgjöld með tryggingafræðilegum aðferðum, en iðgjöldin standa straum af framtíðarkröfum vátryggingartaka og öðrum kostnaði. Hagnaður hlýst af grunnrekstrinum á tilteknu tímabili ef iðgjöld eru umfram kröfur og kostnað við sölutryggingar á tímabilinu.

Ákveðinn tími líður frá því að tryggingafélög fá iðgjöld og þar til þau verða að uppfylla kröfur um bætur, en á þessum tíma hafa félögin sjóð til umráða – í raun ókeypis fé – sem þau nýta í fjárfestingar.

Viðskiptalíkan vátryggingafélaga felst þannig í því að tekjur af iðgjöldum og fjárfestingum séu umfram tjónakostnað, rekstrarkostnað og önnur útgjöld, auk þess að veita einstaklingum og fyrirtækjum tryggingar á samkeppnishæfu verði.

Viðsnúningur var á rekstrarafkomu vátryggingastarfsemi VÍS, Sjóvá og TM árið 2016 og nam hún 2,6 milljörðum króna en var neikvæð um 252,7 milljónir árið á undan. Mestur var viðsnúningurinn hjá TM, úr -1,4 milljónum í 902,8 milljónir. Hlutdeild rekstrarafkomunnar af vátryggingastarfsemi í hagnaði fyrir tekjuskatt var 36,7% hjá félögunum borið saman við -4,8% árið áður. Afkoman í fjármálarekstri dróst saman um 17,5% og lækkaði um tæplega milljarð, úr 5,5 milljörðum í 4,5 milljarða. Mestur var samdrátturinn hjá VÍS, en Sjóvá skilaði mestum hagnaði af fjármálarekstri.

Tapa á ökutækjatryggingum

Eigin iðgjöld, þ.e. tekjufærð iðgjöld, reiknuð sem mismunur iðgjalda og þess hluta iðgjaldanna sem falla í skaut endurtryggjenda, hækkuðu um 8,6% milli ára á meðan eigin tjón hækkuðu um 7,1%.

Bætt afkoma stóru tryggingafélaganna þriggja af grunnrekstri árið 2016 endurspeglast í lækkun á samsettu hlutfalli. Samsett hlutfall er kennitala sem mælir arðsemi vátryggingareksturs og er samanlagður tjónakostnaður, rekstrarkostnaður og endurtryggingakostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Ef hlutfallið er yfir 100% skilar vátryggingareksturinn ekki hagnaði. Hlutfallið var að meðaltali 100% hjá félögunum, en lækkaði um 5,4% milli ára eftir að hafa hækkað um 12% á milli 2012 og 2015. TM er með hagkvæmasta vátryggingareksturinn, með um 97% samsett hlutfall.

Vátryggingar skiptast annars vegar í skaðatryggingar (ökutækjatryggingar, eignatryggingar, sjó- flug- og farmtryggingar, ábyrgðatryggingar og slysatryggingar) og hins vegar líf- og heilsutryggingar. Þegar afkoma einstakra vátryggingaflokka stóru tryggingafélaganna þriggja er skoðuð sést glöggt að félögin töpuðu samanlagt rúmlega 200 milljónum á ökutækjatryggingum, sem eru um helmingur af iðgjöldum. Tapið minnkar þó milli ára, en árið 2015 töpuðu félögin 984,4 milljónum á ökutækjatryggingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .