„Þrátt fyrir að skattheimta á Íslandi sé mikil í bæði alþjóðlegum og sögulegum samanburði þá dugar hún rétt til að halda ríkissjóði réttu megin við núllið." Þetta kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022.

Áætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því að um 1,3% afgangur verði af rekstri hins opinbera að jafnaði til ársins 2022. Í þessari áætlun er miðað við hagvaxtarspá Hagstofunnar en hún gerir ráð fyrir 3% hagvexti á næsta ári og að síðan muni hann lækka lítillega ár frá ári og verða 2,6% árið 2022.

Eitt prósentustig

Samtök atvinnulífsins benda á að fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir kröftugum hagvexti allt tímabilið, sem nú þegar sé orðið hið lengsta í Íslandssögunni. Benda samtökin á að ef hagvöxtur verði 1 prósentustigi minni en gert sé ráð fyrir í áætluninni minnki rekstrarafgangur hins opinbera mikið og reyndar verði halli á rekstrinum árin 2021 og 2022.

„Fari svo að hagvaxtarskeiðið verði styttra eða kraftminna en gengið er út frá íáætluninni verður erfitt að mæta tekjutapi hins opinbera með aukinni skattheimtu," segir í umsögn SA. "Skattbyrði á Íslandi er nú þegar með því mesta sem þekkist meðal ríkja OECD og því lítið svigrúm til að auka álögur á landsmenn til að fjármagna útgjaldafyrirheitin sem birtast í áætluninni.

Blasir við að aðlögunin þyrfti að verða á útgjaldahliðinni en þar sem útgjöld hins opinbera geta verið tregbreytanleg skapar það aukna áhættu á hallarekstri þegar harðnar í ári. Undirstrikar það mikilvægi þess að fyrirheit um útgjöld séu varfærnari í fjármálaáætluninni en raun ber vitni."

Í umsögn SA segir að á núverandi hagvaxtarskeiði hafi útgjöld ríkisins vaxið hraðar en á þensluárunum fyrir árið 2008.

„Eigi að auka útgjöld til helstu málaflokka ríkisins, s.s. til heilbrigðismála, almannatrygginga, menntamála og samgöngumála, verður það ekki gert með aukinni skattheimtu þar sem tekjur hins opinbera eru í sögulegu hámarki. Svigrúm til hækkunar verður að skapa með því að nýta betur fé, sem er til ráðstöfunar innan viðkomandi málaflokka eða draga úr útgjöldum til annarra málaflokka."

Að mati Samtaka atvinnulífsins hafa stjórnvöld margvísleg tækifæri til að bjóða út rekstrar- og þjónustuþætti, hvort heldur er á sviði velferðarmála, menntamála eða annarra málaflokka. Velferðar- og menntamálin eru útgjaldafrekustu málaflokkarnir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .