Vaxandi spenna er á vinnumarkaði. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var ekki nema 2,2% í maí síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar og hefur ekki verið lægra í átta ár, eða síðan í maí 2008. Í könnun Gallup í vor, sem fjallað er um í Peningamálum Seðlabankans, sagði tæplega þriðjungur fyrirtækja að skortur væri á starfsfólki og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan í lok árs 2007.

Sú spurning vaknar hvernig vinnumarkaðurinn mun bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Laun hafa þegar hækkað mikið, ekki síst vegna uppsveiflunnar, en ljóst er að fyrirtæki landsins vilja engu að síður bæta við sig fólki.

Í Peningamálum segir að eitthvert svigrúm gæti verið til að mæta aukinni eftirspurn eftir vinnuafli með lengingu vinnuvikunnar. Fjöldi vinnustunda sem Íslendingar vinna að jafnaði í viku hverri hefur ekki aukist að ráði undanfarin ár, þrátt fyrir mikinn uppgang í efnahagslífinu. Tölur Hagstofunnar benda til að fyrir kreppuna hafi fólk á vinnumarkaði að jafnaði unnið fulla 40 stunda vinnuviku og tvær stundir að auki. Undanfarin sjö ár hefur fjöldi unninna vinnustunda í viku hins vegar verið nálægt 40 tímum.

Í öðru lagi gæti verið svigrúm til að anna eftirspurn eftir vinnuafli með aukinni þátttöku hópa sem eru á jaðri vinnumarkaðarins. Þetta svigrúm fer þó minnkandi. Nánast því allir sem urðu atvinnulausir í kreppunni og hafa verið í virkri atvinnuleit hafa fundið sér vinnu, ef marka má tölur Hagstofunnar. Árið 2011 var um fjórðungur atvinnulausra búinn að vera atvinnulaus í meira en eitt ár. Í dag er þessi hópur aðeins örsmár og flestir sem missa vinnuna finna vinnu innan nokkurra mánaða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .