Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir peningastefnunefnd Seðlabankans hafa stigið jákvætt skref með því að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig. Þetta kemur fram í grein hans á vef SI . Stýrivextir hafa nú verið lækkaðir um eitt prósentustig frá því í ágúst í fyrra.

Segir hann að með lækkuninni sé peningastefnunefndin að draga úr mun innlendra og erlendra vaxta og þeim hvata til sterkari krónu sem vaxtamunurinn hefur skapað. Hefur skammtíma nafnvaxtamunur gagnvart helstu viðskiptalöndum lækkað samhliða lækkun stýrivaxta bankans frá því í ágúst í fyrra. Telur Ingólfur það jákvætt að peningastefnunefndin sjái svigrúm til að draga úr þessum vaxtamun og vinna þannig á móti styrkingu krónunnar.

Ingólfur segir þó að þrátt fyrir lækkunina sé munurinn á skammtíma nafnvöxtum enn mikill eða rúmlega 4 prósentustig. Ástæðan er sú að skammtímavextir eru enn mjög lágir í helstu viðskiptalöndum vegna efnahagsástandsins þar. Nefnir hann einnig að skammtíma raunvaxtamunur sé mikill og hefur hann ekki lækkað að sama skapi og nafnvaxtamunurinn þar sem efnahagsuppsveiflan hér á landi hefur verið mun kröftugri hér á landi en í helstu viðskiptalöndum Íslands. Það er því enn talsverður hvati fyrir fjárfesta að halda fjármunaeignum sínum í krónum sem eykur styrki gjaldmiðilsins. Þetta sé umhugsunarefni fyrir næstu skerf peningastefnunefndar.