Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafa stýrivextir í Bandaríkjunum verið hækkaðir um tvö prósentustig frá því í desember 2015 og eru nú 2,25%. Í kjölfarið á sterkum hagtölum og stýrivaxtahækkunum hefur vaxtastig vestanhafs hækkað. Ávöxtunarkrafa 10 árs bandarískra ríkisskuldabréfa er nú um 3,25% og hefur ekki verið hærri síðan í maí. Hefur krafan hækkað um 1,9 prósentustig frá því hún náði lágmarki sínu í júlí árið 2016 .

Á sama tíma og vaxtastig hefur hækkað í Bandaríkjunum hefur vaxtamunur Íslands og Bandaríkjanna dregist töluvert saman. Í byrjun árs 2016 voru þriggja mánaða REIBOR millibankavextir 6,55% á meðan þriggja mánaða LIBOR millibankavextir í dollurum voru 0,62% og var vaxtamunurinn því 5,93%. Á síðastliðinn mánudag stóðu þriggja mánaða REIBOR vextir hins vegar í 4,7% á meðan LIBOR vextir fyrir sama tíma í dollurum voru 2,41%. Vaxtamunurinn á mánudag var því 2,29% og hafði því dregist saman um 3,64 prósentustig eða tæplega tvo þriðju

. Sé munurinn á raunvöxtum skoðaður með því að bera saman verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf á gjalddaga 2030 og verðtryggð bandarísk ríkisskuldabréf (e.Treasury Inflation Protected Securities) kemur í ljós að munurinn er enn þá minni. Síðastliðinn mánudag var ávöxtunarkrafa íslensku bréfanna 1,81% á meðan krafa þeirra bandarísku var 1,05% og vaxtamunurinn því 0,76 prósentustig. Raunvaxtamunurinn hefur einnig lækkað töluvert en hann var um 3% um mitt ár 2016 og hefur því lækkað um tæplega þrjá fjórðu yfir þetta tímabil.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .