Allt frá innleiðingu gjaldeyrishaftanna hefur legið fyrir að vaxtastigið hér á landi er mun lægra en það annars væri, að því er segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Segir þar að þetta ástand megi rekja til tveggja þátta: í fyrsta lagi eiga erlendir fjárfestar háar fjárhæðir í ríkisskuldabréfum (og innlánum) sem þeir „sitja uppi með“ og í öðru lagi getur Seðlabankinn haldið vöxtum lægri en ella þar sem ekki er eins mikil þörf á að styðja við gengi krónunnar eða bregðast við verðbólguskoti vegna gengisfalls.

Þar sem aflandskrónueigendur mega aðeins fjárfesta í innlánum eða ríkisskuldabréfum bjaga þeir markaðsvexti en þeir vilja fyrst og fremst eiga stutt bréf og eiga nú rúmlega 150 milljarða af þeim 200 milljörðum sem falla á gjalddaga á árunum 2012 til 2013. Eftirspurn eftir stuttum bréfum hefur því verið mikil en á sama tíma hefur framboð farið lítillega minnkandi þar sem ríkissjóður hefur markvisst lengt í fjármögnun sinni sem hefur ýtt undir frekari bjögun á markaði. Segir í Markaðspunktunum að þetta valdi því að ávöxtunarkrafa á markaði til skemmri tíma er of lág miðað við vexti Seðlabankans.

Sker Ísland sig hressilega úr í alþjóðlegum samanburði og er í flokki með m.a. löndum eins og Sviss og Þýskalandi sem teljast með öruggustu fjárfestingarkostum sem í boði eru. Sú staðreynd ein og sér gefur til að verðlagning stuttra markaðsvaxta sé töluvert frá sannvirði enda er ljóst að íslensk ríkisskuldabréf eru lakari fjárfestingarkostur en ríkisskuldabréf áðurnefndra landa, að mati greiningardeildarinnar.