Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og stjórnarmeðlimur Icelandair Group, segir að eftir að hafa byggt upp öflugt og öruggt viðskiptamódel í kringum sölu á heimilisfjármálahugbúnaði sé Meniga nú að taka næsta skref fram á við. Skrefið felst í því að koma með nýjar þjónustur inn í netbankana, meðal annars sérsniðin tilboðskerfi, en fyrirtækið fékk umtalsverða fjármögnun fyrr á árinu. Meniga er í hringiðu þeirra breytinga sem fram undan eru á bankamarkaði í Evrópu, að sögn Georgs, sem segist sjá fram á allt að 50% vöxt í veltu á ári næstu árin vegna þeirra.

Hver er staða Meniga í dag? Hver er viðskiptaáætlun fyrirtækisins?

„Þegar Meniga var stofnað var viðskiptaáætlunin tvíþætt. Fyrra skrefið fólst í því að selja heimilisfjármálahugbúnað til banka og ná þannig til milljóna manna. Við erum búin að taka það skref. Hugbúnaðurinn okkar er til staðar í netog snjallsímabönkum sem yfir 50 milljónir manns nota. Við erum með 35 viðskiptavini í 18 löndum. Um 90% af okkar tekjum koma úr sölu á hugbúnaðarleyfum og tengdri þjónustu, nær eingöngu erlendis frá.

Síðara skrefið, sem við erum að taka núna, felst í því að byggja ofan á grunnlausninni og koma með nýjar virðisaukandi þjónustur inn í netbankana. Við höfum sótt fjármagn frá áhættufjárfestum til að stíga þetta skref. Það felst meðal annars í því að hjálpa bönkum að nota gögnin sem þeir hafa, til dæmis færslur á bankareikningum og kreditkortum, um neyslu- og fjármálahegðun fólks til að veita notendum betri ráðgjöf um sín persónulegu fjármál og birta sérsniðin tilboð sem þeir eru líklegir til að hafa áhuga á.

Sem dæmi fórum við með tilboðskerfi í loftið, fyrst með Meniga smáforritinu og svo með Íslandsbanka, en þeir kalla það Fríða. Svo ætla fleiri bankar í Evrópu að taka þetta upp með okkur á næsta ári. Þetta virkar þannig að Meniga ræðir við alls konar fyrirtæki, eins og verslanir, um hvort þau séu til í að veita afslætti til fólks sem er með þannig neyslumynstur að það sé líklegt til að hafa áhuga á þeirra þjónustu. Þú ert þá spurður í netbankanum hvort þú viljir að neyslusaga þín sé notuð til að sækja tilboð og afslætti sem þú gætir haft áhuga á, til dæmis í búðum sem þú verslar nú þegar við eða í einhverjum svipuðum búðum sem vilja keppa um þín viðskipti.

Þetta höfum við verið að prófa á Íslandi og viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar. Flestir upplifa þetta ekki sem auglýsingu, heldur að bankinn sé að hjálpa neytandanum að spara pening. Afslættirnir eru í flestum tilfellum ríflegir. Það hagnast allir á þessu. Fyrir fyrirtækin er þetta ný og skilvirkari leið til að auglýsa, þar sem fólk er valið samkvæmt neysluhegðun. Bankinn fær auknar tekjur og meiri tryggð frá viðskiptavinum. Við högnumst á því að taka hluta af tekjum bankans. Svo felst ávinningur neytandans í mjög góðum tilboðum og sparnaði á sviðum sem hann er líklegur til að hafa áhuga á.“

Eruð þið þá að veðja á ákveðna þróun á bankamarkaði og í fjármálatækni almennt?

„Já, það eru gríðarlega miklar breytingar í farvatninu á bankamarkaði. Þær eru mest spennandi í Evrópu, sem er okkar aðalmarkaðssvæði. Þar eru reglugerðarbreytingar fram undan sem varða rafrænar greiðslur og persónuvernd. Þær munu öðlast gildi árið 2018 og 2019. Breytingarnar munu þvinga banka og önnur fjármálafyrirtæki til að opna fyrir gögnin og aðgerðirnar í bönkunum. Tæknifyrirtæki á borð við Google eða Facebook geta þá beðið þig um að samþykkja að nálgast bankafærslurnar þínar og millifæra fyrir þína hönd. Það er líka verið að fjárfesta gríðarlega mikið um þessar mundir í fyrirtækjum sem ætla að nýta sér þessa möguleika. Við munum því sjá gríðarlega sprengju í nýjum lausnum sem reyna að hjálpa þér á auðveldan og þægilegan hátt að skilja, skipuleggja og stjórna fjármálunum þínum.

Fyrir banka er þetta ógnun, en einnig tækifæri. Bankar hafa almennt verið að fjárfesta mikið til að verjast þessu og bæta notendaupplifunina í sínum netbönkum. Bankar sem gera það ekki standa frammi fyrir miklu meiri hættu á að fólk fari að stunda bankaviðskipti og greiðslumiðlun í gegnum önnur fyrirtæki sem geta nálgast gögn og aðgerðir bankanna.

Það veit enginn hvernig þetta endar, en við erum að veðja á að bankarnir muni halda sinni stöðu í þessum breytingum. Okkar sýn er að netbankinn verði ekki eingöngu staður til að stunda bankaviðskipti og millifærslur, heldur verði hann persónulegur, rafrænn fjármálaráðgjafi sem hjálpar þér að besta fjármálin þín og bæta þína fjármálahegðun í víðu samhengi. Hann verður eins og Fitbit eða Strava, nema fyrir fjármálin þín. Netbankinn fylgist þá með þínum fjármálum og er stöðugt að veita þér ráðgjöf um það hvernig þú getur nýtt peningana betur.

Nánar er rætt við Georg Lúðvíksson, forstjóra Meniga, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .