Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir fyrirtækið veðja á staðsetningar þjónustustöðva sem einn mikilvægasta þjónustuþáttinn í framtíðinni og mun félagið selja þann orkugjafa sem verður ofan á hverju sinni.

Hvernig metur þú horfurnar í olíuverði og á olíumarkaðnum almennt?

„Um það er erfitt að spá. Við sáum mikið fall á heimsmarkaði árið 2014 þegar verðið fór úr yfir 100 Bandaríkjadollurum á tunnuna niður fyrir 50. Síðan þá hefur verðið verið að dansa á bilinu 40-55 dollarar. Ég myndi spá því að við myndum frekar sjá verðið fara hækkandi, enda erum við að tala um takmarkaða auðlind.

Við bjóðum okkar viðskiptavinum framvirka samninga í olíuviðskiptum og einnig notum við framvirka samninga í áhættustýringu félagsins. Mesta áhættan liggur í þróun heimsmarkaðsverðs og þróun á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Dæmin sýna að það geta orðið miklar sviptingar á stuttum tíma.

Hvað horfurnar varðar eru menn alltaf að finna ný svæði þar sem finnst olía og tæknin til olíuvinnslu er alltaf að verða betri. Síðan eru að koma inn nýir orkugjafar. Eftir kannski 40 ár verða aðrir orkugjafar notaðir í samgöngum og við höfum ekki hugmynd um það hvernig samgöngutækin verða þá. Næstu 10 til 20 árin verður jarðefnaeldsneyti áfram notað til að reka samgöngur að stærstum hluta, en nýir orkugjafar munu koma sterkari inn eftir því sem þróunin á þeim ökutækjum sem við munum ráða yfir breytist sem og tæknin sem því fylgir. Hraðinn á þeirri þróun veltur þó auð­ vitað á þáttum á borð við skattlagningu, framboð af rafmagnsbílum, tækniþróun og þar fram eftir götunum, en það verð­ur að hafa í huga að jarðefnaeldsneyti er enn sem komið er með mjög mikla samkeppnishæfni í verði.

Fyrir okkar félag trúi ég því að það sem muni skipta máli í framtíð­ inni eru staðsetningarnar. Þær munu áfram vera mikilvægur þjónustuþáttur í framtíðinni fyrir þann sem er á ferð­ inni, óháð því hvaða ökutæki hann er að nota. Hann er ekki bara að sækja þann orkugjafa sem hann þarf, heldur einnig mat og þjónustu við ökutækið, sem við höfum verið að styrkja okkur í. Við höfum sagt að við munum einbeita okkur að því að selja þá orkugjafa sem verða ofan á hverju sinni. Í dag erum við að selja jarðefnaeldsneyti og metangas, og erum einnig að útvega rafmagn. Við sjáum rafmagnsþáttinn á Íslandi kannski verða sterkari, enda er Ísland eitt örfárra landa sem geta verið sjálfbær með rafmagn og orkunotkun til samgangna. Það er mjög mikil gerjun í því í augnablikinu og við erum að taka þátt í henni af fullum krafti.“

Nánar er rætt við Jón Ólaf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .