Greiningaraðilinn Ben Kallo hjá Baird Equity Research telur að Tesla Motors muni fara langt fram úr væntingum Wall Street. Hann hefur titlað Tesla Motors sem hlutabréf ársins 2017 og segir Tesla Energy og Model 3 vera megin forsendu þessara hækkana þ.e. hann telur áhrif þessara liða ekki endurspeglast í verði hlutabréfanna.

Tesla Model 3 bíllinn, sem er hagstæðasti bíll fyrirtækisins til þessa, mun að öllum líkindum byrja að sjást á götum Bandaríkjanna í lok þessa árs. Verð á slíkum bíl mun vera um 35 þúsund dali.

Kallo virðist vera svo viss um hækkanir ársins, að hann hefur mælt með því að kaupa bréf áður en fyrirtækið sendir frá sér tilkynningar um gang mála og þróun verksmiðjanna. Taka þarf fram að fyrirtækið sem hann starfar hjá mun á næstu dögum halda kvöldverð, þar sem stjórnendur Tesla verða viðstaddir og munu í kjölfarið heimsækja verksmiðjurnar.

Í kvöld mun Tesla Motors svo kynna hversu vel þeim gekk að afhenda bíla á fjórða fjórðungi ársins 2016. Fyrirtækið er einnig ný búið að ljúka samruna við Solar City og eru margir með miklar væntingar í garð Elon Musks og félaga.

Orðum Kallo verður þó líklegast að taka með fyrirvara. Samkvæmt vefsíðunni TipRanks, sem metur greiningaraðila, hefur hann aðeins haft rétt fyrir sér í 42% tilvika. Hefði einhver fylgt öllum hans ráðum frá árinu 2012 og einungis átt bréfin í eitt ár, hefði sá og hinn sami einungis hagnast um 0,3% á ári.