*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 19. maí 2016 13:17

Veðjað á laxeldið

Leyfi til að hefja laxeldi kostaði um 200 milljónir í Noregi fyrir tveimur árum en kostar 300 þúsund hérlendis.

Trausti Hafliðason
Kost sem sýnir hvaða fyrirtæki hafa starfsleyfi fyrir laxeldi og framtíðaráform.

Framleiðsla á eldislaxi mun margfaldast á næstu árum ef áætlanir laxeldisfyrirtækja ná fram að ganga. Í fyrra voru framleidd rúm 3 þúsund tonn en gert er ráð fyrir 8 þúsund tonna framleiðslu í ár, sem þýðir að framleiðslan mun aukast um 245% milli ára.

Í dag hafa nokkur fyrirtæki starfsleyfi fyrir 26 þúsund tonna framleiðslu á ári. Þess ber að geta að í sumum tilfellum hafa fyrirtækin leyfi til að framleiða lax, regnbogasilung og þorsk og er ekki greint á milli tegunda í leyfinu heldur er fyrirtækjunum í sjálfsvald sett hvaða tegund þau framleiða. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa fyrirtæki sótt um eða eru að íhuga að sækja um leyfi fyrir 52 þúsund tonnum í viðbót. Ef þessar áætlanir ná allar fram að ganga verða eftir nokkur ár í gildi starfsleyfi fyrir tæplega 80 þúsund tonna framleiðslu á eldislaxi á ári.

200 milljónir

Í Noregi er fiskeldi komið að þolmörkum enda framleiða Norðmenn um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á ári. Þar í landi voru ný leyfi fyrir laxeldi síðast veitt árið 2014. Þá kostaði leyfi fyrir 940 tonna laxeldi í Troms og Finnmörku 10 milljónir norskra króna og í öðrum fylkjum Noregs þurftu fyrirtæki að greiða sömu fjárhæð fyrir 780 tonna eldi. Miðað við gengi norsku krónunnar fyrir tveimur árum jafngildir þetta því að fyrirtækin hafi greitt 200 milljónir íslenskra króna fyrir leyfið. Þessir fjármunir renna til hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga í Noregi. Það er því ljóst að í dag er mjög erfitt fyrir fyrirtæki að hefja laxeldi í Noregi í dag — nánast útilokað.

Samkvæmt upplýsingum frá Anders Fururset, blaðamanni hjá Intrafish í Noregi, eru  tiltölulega nýleg dæmi um að norsk fyrirtæki hafi framselt sín leyfi. Samkvæmt hans heimildum þá er markaðsvirði hvers leyfis á bilinu 70 til 100 milljónir norskra króna. Miðað við gengi norsku krónunnar í dag gera þetta 1 til 1,5 milljarða króna.

Staðan á Íslandi er allt önnur. Hér er kostnaðurinn við að fá rekstrar- og starfsleyfi brotabrot af því sem hann er í Noregi. Eftir að MAST tók við fiskeldismálunum í fyrra var í fyrsta skiptið byrjað að innheimta gjald fyrir leyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi.  Í dag kostar rúmar 300 þúsund krónur að fá leyfi fyrir meira en 200 tonna eldi. Er þetta fast gjald og hækkar það því ekki þó sótt sé um meira en 200 tonn. Gjaldið á að standa straum af kostnaði fyrir umsýslu umsókna og úttekt þegar búið er að gefa út leyfið.

Norðmennirnir koma

Það er því ef til vill engin tilviljun að norskir fjárfestar renni hýru auga til Íslands þegar kemur að laxeldi. Í fyrra keypti MNH Holding, eitt af stærstu fiskeldisfyrirtækjum Noregs, helmingshlut í Fiskeldi Austfjarða. Norskir fjárfestar eiga líka um helmingshlut í Arnarlaxi og þá eru Norðmenn einnig að setja fé í Fjarðalax.

Aðalfjárfestirinn á bakvið Arctic Sea Farm, sem áður hét Dýrfiskur, er reyndar ekki norskur heldur pólskur og heitir Jerzy Ryszard Malek.  Malek er vel þekktur í fiskeldisheiminum. Árið 1996 stofnaði hann fyrirtækið Morpol en það hefur aðallega verið í fullvinnslu á laxi. Fyrir fáeinum árum seldi hann Morpol til Marine Harvest, sem er stærsta laxeldisfyrirtækis heims. Árið 2012 var Morpol metið á 30 milljarða króna þannig að ljóst er að Malek hefur hagnast vel á viðskiptunum.

Þessi uppsveifla í laxeldinu á Íslandi vekur upp ýmsar áhugaverðar spurningar. Með lögum frá 2004 voru stór svæði við strendur landsins friðuð og má því segja að búið sé að þrengja nokkuð að laxeldi í sjó. Á þeim svæðum sem koma til greina fyrir sjókvíaeldi er framkvæmt burðarþolsmat og þannig reiknað út hvað hver fjörður þolir mikið laxeldi út frá umhverfissjónarmiðum. Þá má því færa sterk rök fyrir því að ríkið sé í dag að útdeila rekstrar- og starfsleyfum á mjög takmörkuðum gæðum og innheimta tiltölulega lítið fyrir leyfin, að minnsta kosti í samanburði við Norðmenn. Það má vel velta því fyrir sér hvort að eftir nokkur ár verði til einhvers konar kvótakerfi með laxeldisleyfi.

Hér á landi er mjög einfalt að framselja leyfi og kostar umsýslugjaldið 26 þúsund krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: laxeldi fiskeldi
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim