Það er ekki laust við að áhöfnin á Kleifabergi RE hafi rekið upp stór augu þegar einhver stórvaxnasta grásleppa sem sögur fara af slæddist með þar sem skipið var að veiðum á Halamiðum í vikunni. Reyndist hún tæp níu kíló, eða 8,810 grömm nákvæmlega.

Ríkharð Lúðvíksson, sem hér sést halda á grásleppunni, gerði frekari mælingar á fisknum að beiðni Fiskifrétta.

„Það er létt verk, ég lagði hana fyrir í frystinum hjá kokknum – ég ætla ekki að farga henni,“ segir Ríkharð. Var hún á lengdina 57 sentímetrar og aðrir 33 á kambinn. Samkvæmt Fiskabók Matís getur grásleppan orðið allt að 60 sentímetrar á lengd, svo varla hefur stærra eintak verið fært til bókar til þessa. Rauðmaginn hefur mælst lengstur 50 sentímetrar hér við land en er þó oftast 28-40 sentímetrar.

„Ég er sjálfur búinn að vera á grásleppu í einhver 30 ár, og ég hef aldrei séð neitt nálægt þessu. Þær stærstu um fimm kíló sem ég man eftir. Það má líka fylgja sögunni að fleiri grásleppur sáum við ekki þar sem við vorum að veiðum  – aðeins þetta eina kvikyndi,“ segir Ríkharð.

Kleifabergið millilandaði í Reykjavík í gær, 420 tonnum af blönduðum afla eftir tólf daga, og Ríkharð telur líklegt að túrinn verði kláraður á Halanum þar sem hefur verið ágætis veiði að undanförnu.