Veiðigjaldanefnd áætlar að heildarveiðigjöld fyrir fiskveiðiárið 2016/2017  verði samtals 5.780 mkr. Að teknu tilliti til skuldaafsláttar og afsláttar smærri útgerða má ætla að gjöldin nemi 4.780 mkr.

Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Ekki liggja fyrir tölur um endanleg veiðigjöld fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en í frumvarpi sjávarútvegsráðherra var áætlað að gjöldin yrðu 10,8 milljarðar króna. Á fiskveiðiárinu 2014/2015 voru þau 7,7 milljarðar og á fiskveiðiárinu 2013/2014 voru þau 9,2 milljarðar.

Á vef ráðuneytisins er vísað til þess að 47% samdráttur hafi verið í EBT hagnaði veiða milli áranna 2013 og 2014 og 35% samdráttur í fiskvinnslu.

Vakin er athygli á því að frá og með fiskveiðiári 2015/2016 er aðeins um að ræða heildarveiðigjöld, ekki almennt og sérstakt eins og áður var. Þá er þetta síðasta fiskveiðiárið þar sem til greina kemur tímabundin lækkun á veiðigjöldum vegna kvótakaupa, sem sett var á 2012.

Sjá nánar á vef ráðuneytisins og á vef SFS .