Velta Vísis er 6,5 milljarðar og telur Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, fyrirtækið vera lítið eða meðalstórt fyrirtæki í sjávarútvegi. Rætt var við Pétur í Viðskiptablaðinu í vikunni sem leið. „En sumir líta á okkur sem stóra. Hvað er eðlilegt að fyrirtæki skili miklum hagnaði sem hlutfalli af veltu? Segjum einhvers staðar á milli 5-10%. Þessi veiðigjöld eru 50-100% af þeirri tölu. Síðan kemur maður inn á mjög viðkvæmt mál sem eru arðgreiðslur. Veiðigjöldin sem við borgum á einu ári núna, 300 milljónir, er það sama og við höfum borgað okkur í arð á 20 árum. Nú erum við með nýja arðgreiðslustefnu því þetta er fjölskyldufyrirtæki sem hefur tekið út lítinn arð – 300 milljónir á 20 árum er ekki mikið. Nýja stefnan er að greiða 10% af hagnaði í arð. Veiðigjöldin eru því fimm til tíu sinnum hærri en væntar arðgreiðslur. Það er alveg sama hvaða mælistiku þú setur á þetta. Veiðigjöldin á þessu ári eru ekki í neinum takti við raunveruleikann.“

20 borga megnið af veiðigjöldunum

Stóru fyrirtækin í sjávarútvegi greiða oft þónokkuð mikinn arð. Eru þau þá að spila í annarri deild en hin fyrirtækin? „Ég held að HB Grandi sé eina fyrirtækið sem greiðir helming af hagnaði í arð, aðallega vegna lífeyrissjóðanna. Samherji, flaggskipið okkar, greiðir 10%. Flest þessara fjölskyldufyrirtækja greiða jafnvel ekki arð. En spurningin er auðvitað hver sé munurinn á litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum. Þar er talað um 4.000 þorskígildistonn. Ég held að það séu 19 fyrirtæki með meiri kvóta en 4.000 þorskígildi og 20 fyrirtæki borga um 75% af veiðigjöldunum af þessum tæplega 1.000 fyrirtækjum og einstaklingum sem eru með veiðileyfi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .