Veiðihornið lækkar verð á veiðibúnaði umtalsvert á næstu dögum og vikum eftir því sem nýjar vörusendingar berast í ljósi styrkingar krónu og afnáms tolla. Þetta er annað árið í röð sem að verslunin lækkar vöruverð og skilar styrkingu krónunnar og afnámi tolla til íslenskra veiðimanna. Til að mynda var 10% tollur af almennum veiðivörum aflagður nú um áramótin.

Ólafur Vigfússon, eigandi Veiðihornsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann telji þetta eðlilegt í ljósi stöðunnar. „Mér finnst í sjálfu sér þetta ekki vera eitthvað fréttnæmt. Mér finnst það fréttnæmt ef menn gera þetta ekki. Við höfum gert okkur grein fyrir því í mörg ár að við séum í samkeppni á alþjóðlegum markaði, með tilkomu netverslunar.

Við stöndum okkur gríðarlega vel hvað varðar vöruúrval, þjónustu og þekkingu. En við verðum einnig að standa okkur vel varðandi verð. Við erum í samkeppni við, fyrst og fremst, erlendar netverslanir og verslunarferðir Icelandair. Helsti drifkrafturinn í netverslun hefur frá upphafi verið og er enn verð. Þó að markaðsspekingar segja að þetta auki þægindi, þá er það staðreynd að drifkrafturinn í netverslun um allan heim er verð. Við höfum reynt að fremsta megni að vera samkeppnishæf í verði,“ segir Ólafur.

Skila tollalækkunum til viðskiptavina

Um áramótin 2015 til 2016 var aflagður 15% tollur á fatnað, skóm og vöðlum. „Við skiluðum því því að sjálfsögðu strax út í verðlag til okkar viðskiptavina og meira en tvöfölduðum sölu á vöðlum. Eins og allir vita hefur krónan styrkst gífurlega mikið gagnvart helstu innkaupamyntir okkar. Þar af leiðandi höfum við séð okkur fært að lækka verðið ennþá meira. Í mörgum tilfellum höfum við getað talað við okkar birgja og sagt þeim hvað við séum að gera, að við ætlum að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum markaði, og þar af leiðandi getað gert enn stærri pantanir í sannfærandi magni. Í sumum tilfellum höfum við fengið betra verð,“ tekur Ólafur fram.

Enn fremur var um síðustu áramót aflagður 10% tollur af allri almennri vöru, þar flokkast undir veiðistangir, veiðihjól og aðrar vörur. „Það hefur gert okkur kleift að lækka vöruverð okkar gríðarlega mikið,“ segir Ólafur að lokum.