Markaðsvirði kínverska veitingastaðarins Xiabu Xiabu lækkaði um 190 milljónir bandaríkjadali eftir að ólétt kona fann dauða rottu í súpu sem hún keypti af fyrirtækinu. Konan hafði þegar bragðað á súpunni þegar hún fann rottuna. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Veitingastaðurinn bauðst til að borga konunni 5.000 jen sem jafngildir um 730 bandaríkjadölum í bætur. Eiginmaður konunnar segir að einn starfsmaður fyrirtækisins hafi stungið upp á því að konan skyldi fara í fóstureyðingu ef hún hefði áhyggjur af heilsu barnsins. Á starfsmaður staðarins að hafa boðið þeim hjónum 20 þúsund jen, sem jafngildir kostaðinum fyrir slíka aðgerð þar í landi.

Myndum af soðnu rottunni hefur verið dreift víða á kínverskum samfélagsmiðlum og hafa þær vakið mikla reiði.

Í kjölfar fréttarinnar féll verð á hlutabréfum í fyrirtækinu og hefur ekki verið lægra síðan í október á síðasta ári, lækkunin hefur þó að einhverju leyti gengið til baka.

Veitingastaðurinn hefur gefið út að þeir hafi útilokað það að skortur á hreinlæti hafi valdið því að rottan fór í súpuna.