Veitingahúsakeðja sjónvarpskokksins Jamie Oliver, Jamie’s Italian á Bretlandi, á í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum. Verið er að loka 12 af 37 veitingastöðum keðjunnar á Bretlandi til að hagræða í rekstrinum. Keðjan tapaði 9,9 milljónum punda, fyrir skatta árið 2016, eða sem samsvarar tæplega 1,4 milljarði króna að því er kemur fram í umfjöllun Guardian um málið.

Til að laga stöðuna lagði Jamie Oliver sjálfur 3 milljónir punda, um 420 milljónir króna, í keðjuna í desember.

Í gögnum sem lögð voru fram fyrir breskum dómstólum  kemur fram að Jamie’s Italian á Bretlandi skuldi 71 milljón punda, um 10 milljarða króna. Tekjur keðjunnar námu 113 milljónum punda, eða 16 milljörðum króna sama ár.

Jamie Oliver hefur áður sagt að hann hafi persónulega tapað um 90 milljónum punda, nærri 13 milljörðum króna, frá því þegar auður hans var mestur árið 2014 og klúðrað um 40% af þeim viðskiptatækifærum sem hann hafi tekið þátt í. Auður Jamie Oliver er metinn á um 150 milljónir punda eða sem samsvara um 21 milljarði króna.

Afkoma annarra hluta samstæðu Jamie Oliver ganga flest betur. Jamie Oliver Holdings, sem á meðal annars réttinn af bókum og sjónvarpsþáttum kokksins hagnaðist um 5,4 milljónir punda fyrir skatt árið 2016. Jamie's Italian International, sem á sérleyfi af veitingastöðum Jamie’s Italian utan Bretlands, þar á meðal á Íslandi, skilaði 2 milljónum punda hagnaði fyrir skatt árið 2016 og félagið Jamie Oliver Licensing, sem selur nafn Jamie Oliver á ýmiskonar húsbúnaði og matvörur hagnaðist um 7,3 milljónir punda fyrir skatt árið 2016. Veitingahúsin Barby voru hins vegar rekin með 540 þúsund punda tapi og hafa verið auglýst til sölu.