Á síðasta ári skiptust heildarlaun starfstétta á Íslandi þannig að þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk var að meðaltali lægst, eða með 479 þúsund á mánuði meðan stjórnendur voru hæstir með 1.079 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.

Þar á milli voru svo skrifstofufólk næstlægstir eða með 497 þúsund krónur, verkafólk með 520 þúsund krónur, tækni- og sérmenntað starfsfólk með 699 þúsund krónur, sérfræðingar með 707 þúsund krónur og iðnaðarmenn með 715 þúsund krónur samkvæmt skiptingu Hagstofunnar .

Launadreifingin innan hverrar stéttar var svo jafnframt mismikil, þannig voru 80% skrifstofufólks með heildarlaun á bilinu 342 þúsund krónum til 662 þúsund krónum á mánuði. Laun stjórnenda voru hins vegar mjög dreifð en um 80% þeirra voru með laun á bilinu 606 þúsund til 1.776 þúsund krónur.

Þegar launin eru skoðuð eftir atvinnugreinum voru þau hæst í rafmagns-, gas-, eða hitaveitum, eða 905 þúsund krónur að meðaltali, og í fjármála- og vátryggingastarfsemi voru þau 893 þúsund krónur. Hins vegar voru þau lægst í fræðslustarfsemi, eða 540 þúsund krónur, en þar var jafnframt minnst dreifing á heildarlaununum, meðan hún var mest í fjármálastarfsemi.