Steingrímur H. Pétursson tók við starfi Einars Marinóssonar sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís í maí síðastliðnum, þegar Einar tók við sem aðstoðarforstjóri.

Steingrímur er Akureyringur og flytur suður til að taka við starfinu, en fjölskylda hans býr áfram fyrir norðan þangað til næsta vor.

„Við fjölskyldan vorum farin að horfa til þess að flytja suður, þó að ætlunin var að það yrði ekki fyrr en næsta vor, en yngsta dóttirin er í grunnskóla fyrir norðan og viljum við leyfa henni að klára það svo hún sé ekki að breyta um umhverfi fyrir eitt ár," segir Steingrímur. „Við höfðum sammælst um það að ef starf byðist fyrir sunnan fyrr myndi ég fara bara á undan. Það að fá að taka við Einari hér er hreinlega bara of gott tækifæri til að sleppa því og hefur verið frábært að fá
að vinna með honum undanfarið við að komast inn í starfið."

Steingrímur á þrjú börn með konu sinni, Lindu Björk Sævarsdóttur. Þau eru Þórunn Björk sem er að fara á þriðja ár í hagfræði við Háskóla Íslands, Egill sem er að fara í þriðja bekk Menntaskólans á Akureyri og Svanfríður sem er að klára grunnskóla.

Fjölskyldumeðlimur skilinn eftir

Steingrímur fylgist mikið með íþróttum þó að hann stundi ekki lengur handbolta og fótbolta öfugt við skíðin og snjósleðann. Hann segist nú vonast til að geta haldið áfram á skíðunum hér fyrir sunnan en „ætli snjósleðinn verði ekki eini fjölskyldumeðlimurinn sem verði skilinn eftir heima,“ segir Steingrímur að lokum með söknuði.

Nánar er rætt við Steingrím í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .