Velta á innlendum skuldabréfamarkaði nam 231 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Velta á skuldabréfamarkaði hefur dregist töluvert saman frá seinni helmingi ársins 2015 og hafa tveir fyrstu ársfjórðungar þessa árs verið þeir veltuminnstu þegar síðustu fimm ár eru skoðuð ef undan er skilinn annar ársfjórðungur 2017. Þá var velta á skuldabréfamarkaði rúmlega helmingi minni á fyrri helmingi þessa árs heldur en hún var á seinni helmingi ársins 2015.

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, segir að aukning í frumútgáfu skuldabréfa, aukin sjóðsfélagalán lífeyrissjóða og innflæðishöft séu líklega helstu ástæður þess að velta hefur dregist saman. „Til að byrja með hefur eftirspurn eftir fjármagni á markaðnum aukist töluvert frá árinu 2015. Þá hefur skuldabréfaútgáfa aukist um 45% á fyrstu fimm mánuðum þessa árs miðað við meðaltal síðustu fjögurra ára. Þetta aukna framboð á skuldabréfum hefur orðið til þess að dregið hefur úr umsvifum lífeyrissjóðanna á eftirmarkaði þar sem þeir taka að miklu leyti einungis þátt í útboðum,“ segir Agnar.

Lífeyrissjóðir og innflæðishöft hafa áhrif

„Á sama tíma og framboð hefur aukist hafa lífeyrissjóðirnir aukið verulega við lán sín til sjóðsfélaga. Árið 2015 veittu þeir nær engin sjóðsfélagalán en lánveitingar þeirra nema nú yfir 100 milljörðum króna á ári. Þessi lán hafa að miklu leyti komið í staðinn fyrir viðskipti sjóðanna á eftirmarkaði þar sem þeir hafa minna fjármagn til að spila úr. Svo þegar þeir vilja gera eitthvað er meira en nægt framboð af skuldabréfum í gegnum útboð til að mæta eftirspurn þeirra,“ segir Agnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .