Í frétt Bloomberg fréttastofunnar kemur fram að eigendur CCP íhugi nú sölu á fyrirtækinu. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar fara stjórnendur CCP yfir stöðuna en nokkur áhugi er meðal fjárfesta um kaup á fyrirtækinu.

Fyrirtækið er meðal annars í eigu Novator Partners LLP, General Catalyst Partners LLC og New Enterprise. Í frétt Bloomberg kemur fram að söluvirði CCP væri um 955 milljón dollarar eða 900 milljónir evra - eða því sem jafngildir um það ríflega 100 milljörðum íslenskra króna.

Forsvarsmenn CCP, General Catalyst og New Enterprise, hafa ekki viljað svarað fyrirspurnum Bloomberg um málið.

Úr tapi í hagnað

Í fyrra skilaði fyrirtækið 2,7 milljarða króna hagnaði. Árið 2014 skilaði fyrirtækið tapi upp á 8,7 milljarða, en það ár var mikil fjárfesting í leiknum World of Darkness afskrifuð og hafði það veruleg áhrif á rekstrarreikning fyrirtækisins. Samkvæmt upplýsingum frá CCP hefur hagnaður félagsins aldrei verið jafnmikill á einu ári og í fyrra og að fjárhagsleg staða þess hafi aldrei verið sterkari miðað við stöðu handbærs fjár.