Velta á gjaldeyrismarkaði í febrúar, mars og apríl hér á landi var nokkuð lág, eða einungis 8 milljarðar króna á mánuði. Til samanburðar var veltan 53 milljarðar króna á mánuði á sama tímabili í fyrra. Hefur veltan því dregist saman um heil 85% á milli ára. Þetta kemur fram í mánaðaðarlegu yfirliti hagfræðideildar Landsbankans yfir gjaldeyrismarkaðinn.

Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 0,3% milli mánaða og er nú 1,8% hærra en fyrir ári síðan.

Bandaríkjadollar hefur styrkst nokkuð síðasta mánuðinn. Evran hefur áfram haldið sig á bilinu 120-125 krónur í þessum mánuði.

Af gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda Íslands hefur sænska krónan lækkað mest.

Flökt íslensku krónunnar gagnvart evru eru einnig orðnar minni en sveiflur sænsku og norsku krónunnar gagnvart evru.