Rannsóknir Hagstofu Íslands sýna að velta skv. virðisaukaskattskýrslum í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2008 til dagsins í dag. Veltan hefur þannig rúmlega tvöfaldast á árunum 2008 til 2015 eða úr rúmum 191,2 milljörðum króna á ári í rúma 412,2 milljarða króna. Þá jókst veltan úr rúmlega 354,6 milljörðum króna árið 2014 í 412,2 milljarða árið 2015.

Eins og gefur að skila er ekki hægt að segja með vissu hver veltan verður árið 2016 en fyrstu mánuðir ársins gefa þó til kynna að aukningin verði með svipuðu móti. Þannig jókst veltan úr 45,6 milljörðum króna í tæpa 56,6 milljarða á fyrstu mánuðum ársins.

Færri greinar undanþegnar virðisaukaskatti

Niðurstöðurnar byggja á veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í greinum á borð við farþegaflutninga með flugi, gististaði, veitingasölu og þjónustu og bifreiðaleigu. Þar með eru þó ekki taldar allar atvinnugreinar tengdar ferðaþjónustu enda eru sumar greinar undanþegnar virðisaukaskatti og velta þeirra því ekki hluti af niðurstöðunum. Hér er um að ræða t.d. söfn, sundstaði og áætlunarferðir með strætisvögnum.

Nýlega voru gerðar breytingar á skattalögum og eru því færri greinar undanþegnar virðisaukaskatti frá og með 1. janúar sl. og eru þær nýfarnar að skila virðisaukaskattsskýrslum og skatti. Hér er t.d. um að ræða greinar á borð við hvalaskoðun, siglingar á Jökulsárlóni, hestaferðir, rútuferðir, heilsulindir eins og Bláa lónið og þjónustu ferðaskrifstofa innanlands. Breytingin hefur þó ekki áhrif á niðurstöðurnar þar sem þessum atvinnugreinum verður ekki bætt við tölur Hagstofunnar fyrr en 11. júlí þegar velta á tímabilinu mars-apríl verður birt.