Velta laxeldis á Íslandi gæti numið um 1,1 milljarði evra í framtíðinni eða tæplega 129 milljörðum króna að því er kemur fram í nýrri greiningarskýrslu frá norræna fjárfestabankanum Beringer Finance þar sem rýnt er í framtíðarhorfur í laxeldi á Íslandi. Um málið er fjallað í ViðskiptaMogganum í dag.

Ef spá Beringer Finance rætist myndi laxeldi leggja til 5% af landsframleiðslu hér á landi. Til samanburðar er bent á að hlutdeild sjávarútvegs var ríflega 8% af landsframleiðslu árið 2015. Þá yrði markaðshlutdeild Íslands í laxeldi á heimsvísu 5 til 6%. Laxeldið gæti mögulega skapað um sex þúsund störf á landsbyggðinni til samanburðar störfuðu tæplega níu þúsund manns í sjávarútvegi í apríl.

Í greininni er þó tekið fram að enn sé þó langt í land. Búist er við því að uppskeran í ár verði rúmlega tíu þúsund tonn, sem koma öll frá Arnarlaxi, en miðað við spána er gert ráð fyrir því að íslenskt laxeldi muni framleiða rúmlega 167 tonn. Það sem gæti haft áhrif á spá Beringer Finance er meðal annars verð á laxi, hvort rekstur fyrirtækjanna komist á skrið auk þess sem umsvif laxeldis eru háð leyfisveitingum frá stjórnvöldum.