Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í maí 2016 var 604. Heildarvelta nam 28,1 milljarði króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 46,6 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 16,6 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 8,7 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 2,8 milljörðum króna.

Þegar maí 2016 er borinn saman við apríl 2016 fækkar kaupsamningum um 8,3% og velta eykst um 6,2%. Í apríl 2016 var 659 kaupsamningum þinglýst, velta nam 26,5 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 40,2 milljónir króna.

Vegna verkfalls lögfræðinga hjá Sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins var engum samningum þinglýst í maí 2015. Því er ekki hægt að bera maímánuð 2016 saman við sama mánuð síðasta árs.

Makaskiptasamningar voru 9 í apríl 2016 eða 1,6% af öllum samningum. Í maí 2016 voru makaskiptasamningar 6 eða 1% af öllum samningum. Makaskiptasamningur er þegar hluti kaupverðs er greiddur með annarri fasteign.

Vakin er athygli á að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar. Þetta kemur fram í frétt Þjóðskrár.