Búist er við að heildarfjöldi ferða Íslendinga erlendis í ár nái 524 þúsund á árinu, þegar búið er að taka tillit til þeirra 74 þúsund brottfara sem búist er við það sem eftir lifi árinu.

Samkvæmt umfjöllun Íslandsbanka um málið, eru brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli nú þegar komnar upp í 450 þúsund, en með þessari viðbót jafngildir aukningin 16,4% á milli ára.

Umfjöllunin vísar í 7,4% aukningu í brottförum Íslendinga milli ársins í ár og þess næsta samkvæmt farþegaspá Isavia, svo þær verða 563 þúsund talsins ef hún gengur eftir.

Ekki skortur á gjaldeyri

Segja þeir að þrátt fyrir aukinn kaupmátt Íslendinga með sterkara gengi krónunnar og þar af leiðandi aukningu á utanlandsferðum Íslendinga, ætti ekki að verða skortur á gjaldeyri í landinu.

Það sé vegna þess að útlit sé fyrir að enn meira innstreymi gjaldeyris verði á næsta ári hér á landi frá ferðaþjónustunni á næsta ári heldur en var í ár.

Allmyndarlegur viðskiptaafgangur

Isavia spái 25% fjölgun ferðamanna sem komi hingað til lands í gegnum Keflavíkurflugvöll á næsta ári, sem þýði 2.241 þúsund ferðamenn eða um 1,7 milljón ferðamenn sem komi hingað til lands umfram brottfarir Íslendinga.

Reikna þeir með að gjaldeyrisinnstreymi af kortaveltu ferðamanna hér á landi umfram kortaveltu Íslendinga erlendis, muni nema um 120 milljörðum króna á árinu, en á fyrstu 10 mánuðum þessa árs nam hún 103 milljörðum króna.

Það þýði samkvæmt þessum spám að hún verði 180 milljarðar króna nettó á næsta ári og spá þeir því allmyndarlegum viðskiptaafgangi með tilheyrandi gjaldeyrisinnflæði frá utanríkisviðskiptum á næsta ári, þrátt fyrir vaxandi halla á vöruskiptum.