Það er ekki einungis velta á skuldabréfamarkaði sem hefur dregist saman á síðustu misserum eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær . Velta á hlutabréfamarkaði hefur einnig dregist saman eftir að hafa náð hámarki á fyrsta ársfjórðungi 2017. Frá því að gjaldeyrishöftum var aflétt þann 14. mars í fyrra hefur velta á markaðnum dregist saman og var annar ársfjórðungur þessa árs sá veltuminnsti síðan á þriðja ársfjórðungi ársins 2015. Á þessu tímabili voru þó fjögur ný félög skráð á aðalmarkað kauphallarinnar þrátt fyrir að tvö þeirra hafi einungis nýlega bæst við.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að tveir þættir séu mögulegar skýringar á minni veltu á hlutabréfamarkaði. „Síðustu misseri hafa fjárfestingar lífeyrissjóðanna í hlutabréfum aukist erlendis en hafa á sama tíma dregist saman hér innanlands. Það hefur nokkuð um þetta að segja þar sem sjóðirnir eru hlutfallslega stórir á meðan aðrir aðilar eru að koma sér fyrir á markaðnum. Við þessar aðstæður má alveg búast við því að tímabundið dragi úr veltu. Maður býst við að eftir því sem aðrir fjárfestar tínast inn á markaðinn eins og hefur að einhverju leyti verið að gerast með erlendu fjárfestana þá taki veltan á markaðnum við sér,“ segir Páll.

„Ég held að vegna þess hve lífeyrissjóðirnir eru stórir á markaðnum þá er þetta atriði sem er ekki hægt að líta framhjá. Um leið og við fáum aðra fjárfesta bæði erlenda og síðan almenning í meiri mæli þá ætti það að einhverju leyti að vega upp á móti. Það ætti einnig að gerast að eftir því sem markaðurinn stækkar og það koma fleiri félög inn þá ætti þessi þróun að snúast við. Ég á ekki von á því að hún haldi áfram og svo virðist sem við séum á ákveðnum lágpunkti. Við höfum væntingar til þess að þetta sé tímabundið og að þetta muni jafna sig eftir því sem fleiri koma inn á markaðinn og lífeyrissjóðirnir komi inn í ný félög sem yrðu skráð á markað.“

Páll bendir einnig á að á sama tímabili hefur lítið verið um nýskráningar á hlutabréfamarkaði sem hjálpi ekki til. Frá fjórða ársfjórðungi 2015 til annars ársfjórðungs þessa árs var Skeljungur eina nýja félagið sem var skráð á aðalmarkað.

Áhyggjuefni ef ástandið verður viðvarandi

Páll segir að sem tímabundið ástand sé ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af lítilli veltu á hlutabréfamarkaði. „Ég myndi hins vegar fara að hafa örlitlar áhyggjur ef þetta verður viðvarandi ástand, það yrði ekki gott fyrir markaðinn. Ég held það séu eðlilegar skýringar á þessu og ég hef engar teljandi áhyggjur fyrir uppbyggingu markaðarins. Ég held að heilt á litið séum við á ágætum stað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .