Ísland er í hópi þeirra iðnríkja sem hafa allra minnstu verðbólguna, segir greiningardeild Íslandsbanka og vitnar í samræmda vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Verðbólga á Íslandi síðustu tólf mánuði mældist 1,5% sambanborið við verðbólgu í helstu viðskiptalöndum Íslands. ?Verðbólga á Íslandi hefur aukist nokkuð síðustu mánuði en er engu að síður mjög lítil á þennan mælikvarða sem sýnir Íslandi í hópi þeirra iðnríkja sem hafa allra minnstu verðbólguna. Á Evrópska efnahagssvæðinu er minnsta verðbólgan 0,8% í Finnlandi og 0,9% í Svíþjóð en mesta verðbólgan er 7,7% í Lettlandi, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Greiningardeildin bendir þó á að verðbólgan hér á landi var hins vegar 4,6% í október ef miðað er við hina hefðbundnu vísitölu neysluverðs sem er almennt viðmið á Íslandi, meðal annars við verðtryggingu og í verðbólgumarkmiði Seðlabanka.

?Verðbólgan hérlendis er því fremur mikil samkvæmt þeim kvarða. Mestu munar þar um að íbúðaverð er ekki meðtalið í samræmdu vísitölunni, en íbúðamarkaðurinn hefur verið helsti verðbólguvaldurinn í hagkerfinu á þessu ári," segir greiningardeildin.

Íslandsbanki segir stefnu Seðlabankans endurspeglast að einhverju leyti í þeirri litlu verðbólgu sem ríkir að íbúðaverði undanskildu. ?Mikil vaxtahækkun bankans hefur haldið aftur af innflutningsverðlagi í gegnum hátt gengi krónunnar og bankinn hefur þannig að öllum líkindum komið í veg fyrir frekari verðbólgu en komið hefur fram, þótt umdeilt sé hvort sá árangur sé of dýru verði keyptur," segir greiningardeildin.