Í Peningamálum Seðlabankans, sem gerð voru opinber núna klukkan 11, kemur fram að verðbólguhorfur til næsta árs hafa versnað síðan í mars og útlit er fyrir að verðbólgumarkmiðið náist síðar jafnvel þótt stýrivöxtum verði haldið óbreyttum lengur en reiknað var með.

Í Peningamálunum segir að spáin nú bendir til að ekki verði unnt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helmingi næsta árs eigi viðunandi horfur að vera á að verðbólga verði við markmið á því ári og að það náist að fullu snemma árs 2009.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 13,3%. Verðbólga hefur hjaðnað hægar en gert var ráð fyrir í spá bankans í mars sl. þótt gengi krónunnar hafi hækkað meira en reiknað var með. Verðbólga mælist nú 4% en áætluð undirliggjandi verðbólga um 6%.