Meðalverð á áli árið 2016 var um 1.600 dollarar tonnið, samkvæmt tölum frá London Metal Exchange (LME) en það sem af er þessu ári hefur meðalverðið verið í kringum 1.820 dollarar. Í dag stendur verðið í um 1.900 dollurum sem er rétt tæplega 20% hærra verð en meðalverðið var á síðasta ári.

Þessi verðþróun er töluvert umfram þær spár sem bæði LME og Heimsbankinn sendu frá sér síðasta haust. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir að álverð myndi þokast hægt upp á þessu ári og verða að meðaltali um 1.675 dollarar. Þá var því spáð að verðið myndi ekki rúfa 1.800 dollara múrinn fyrr en árin 2020 og 2021 en annað hefur komið á daginn.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist ekki kunna neinar sérstakar skýringar á þessum miklu hækkunum. Aftur á móti ágætt að hafa í huga að í fyrra hafi álverð líka lækkað meira en spár hafi gert ráð fyrir.

„Þessi markaður, eins og aðrir markaðir, er mjög mikið byggður á væntingum," segir Hörður. „Stærsti hlutinn er fjármálaleg viðskipti. Hvort þetta haldi veit ég ekki. Ég vona svo sannarlega að þetta haldi og álverð haldi áfram að hækka. Það er mjög mikilvægt fyrir okkar viðskiptavini og okkur. Ég tel að álverð sé enn of lágt.  Það hefur líka verið sveifla upp á við annars staðar eins og til dæmis á olíu-, raforku- og  stálmarkaði."

Ein veigamesta ástæðan fyrir lækkun álverðs var stóraukin framleiðsla í Kína. Frá árinu 2010 og til ársins 2015 tvöfölduðu Kínverjar næstum framleiðslu á áli sem þýðir að í dag er næstum helmingur alls áls í heiminum framleiddur í Kína. Í janúar, þegar Barack Obama var enn forseti Bandaríkjanna, sendu bandarísk stjórnvöld kvörtun til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Telja þau að kínverski áliðnaðurinn sé fjármagnaður með ódýrum ríkislánum og niðurgreiddri orku. Þetta skekki alla samkeppni. Þetta mál hefur fengið byr undir báða vængi því Evrópusambandið, Rússland, Kanada og Japan hafa tekið undir kvartanir Bandaríkjamanna. Þetta kann að hafa haft áhrif á álverð til hækkunar.

Trump-áhrifin?

Annað sem einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins nefndi var að í kjölfar þess að Donald Trump hafi tekið við sem forseti Bandaríkjanna hafi trú á iðnaðarframleiðslu í Bandaríkjunum aukist. Eins og margir vita hyggst Trump gera Bandaríkin mikilfengleg (e. great) aftur og þeirri orðræðu hefur hann mikið talað um að auka veg iðnaðar á nýjan leik.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .