Verð á atvinnuhúsnæði hrundi í kjölfar kreppunnar sem hófst haustið 2008 og lækkaði stöðugt til ársins 2012 og náði þá lágmarki. Raunverð atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu féll mun meira en raunverð íbúðarhúsnæðis á tímabilinu. Að sama skapi hækkaði verð á atvinnuhúsnæði meira á árunum 2014 og 2015, eða 26% á sama tíma og íbúðarhúsnæði hækkaði um 15%.

Mjög hefur gengið á laust atvinnuhúsnæði á frá árinu 2013. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var um 10% af skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu óútleigt eða tómt árið 2013. Þetta hlutfall var komið í um 5% árið 2015 og hefur haldið áfram að lækka.

Um 5% af verslunarhúsnæði var laust árið 2013 en lítið framboð er af því í dag. Sömu sögu er að segja af iðnaðarhúsnæði og eftirspurn eftir minni iðnaðarbilum er orðið mikið.

Lítið byggt eftir hrun

Þótt margir telji að byggingargeirinn sé kominn í fluggír, þá hefur lítið verið byggt af atvinnuhúsnæði eftir hrun fyrir utan hótel. Þær byggingar sem hafa risið eru oftar en ekki sérhæfð hús. Má þar nefna húsnæði undir flughermi Icelandair í Hafnarfirði, lagerhúsnæði fyrir Banana ehf. við Sundahöfn og frystigeymslur Eimskipa við Hafnarfjarðarhöfn.

Þar sem framboð af lausu húsnæði er að hverfa verður breyting þar á næstu misserum og verður þá nokkuð byggt af nýju skrifstofuhúsnæði.

Verið að byggja 8.000 fermetra skrifstofuturn við Höfðatorg og framkvæmdir hefjast í mars við byggingu 14.000 fermetra hús undir CCP og fleiri aðila í Vatnsmýrinni.

Leiguverðið lækkaði í takt við verðlækkunina í kjölfar hrunsins en það hefur hækkað aftur á síðustu misserum í takt við minnkandi framboð. Fyrst fór leiguverðið hækkandi í miðborg Reykjavíkur, sérstaklega á verslunarhúsnæði. Þar er fermetraverðið frá 5.000-10.000 krónur á mánuði, eftir staðsetningu og ástandi. Svipað verð eru í Kringlunni og verðið Smáralind hefur einnig hækkað, þó töluvert seinna.

Skrifstofuhúsnæði hefur einnig hækkað mikið í verði og eru nýjustu dæmin eru í kringum 3.500 krónur á fermetrann í vönduðu húsnæði í miðbænum. Verðin í Borgartúni og Höfðatorgi er sú sama, en verðið er nær 3.000 krónum.

Hvað kaupverð varðar þá er verðþróun atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu mjög háð staðsetningu. Verð á skrifstofuhúsnæði er t.a.m. mun lægra í ytri hverfum á svæðinu en á öðrum stöðum, t.d. í Borgartúni. Mikil eftirspurn hefur verið eftir góðu skrifstofuhúsnæði á miðlægum svæðum og þar er verðið hlutfallslega hátt. Þá hefur mikil fjölgun ferðamanna haft mikil áhrif á verð atvinnuhúsnæðis á bestu stöðum í miðborginni.

Stór fasteignafélög eru áberandi á markaðinum og hafa mikil áhrif á þróunina. Þannig má segja að eignir sem fasteignafélög hafa áhuga á, eignir á góðum stað með traustum leigusamningum, séu betri söluvara en margt annað og að verð slíkra eigna hækki meira en annarra. Þá höfðu aðrir fjárfestar einnig meiri áhuga á fasteignum sem fjárfestingarkostum í því þrönga fjárfestingarumhverfi sem ríkti til skamms tíma innan fjármagnshafta.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignir sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .