Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí en sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili. Þetta kemur fram í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir maímánuð. Þar er leitt líkur að því að þessar verðlækkanir megi rekja til styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og aukinni samkeppni með innkomu Costco.

Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum. Þetta er afskaplega áhugavert að skoða, sér í lagi í ljósi þess að Costco opnaði 23. maí og hafði því einungis starfrækt í eina viku af þeim mánuði sem hér er fjallað um. Enn fremur er tekið fram að þær veltutölur sem Rannsóknasetur verslunarinnar birta ná ekki til veltu Costco. En af þeim tölum sem fyrirliggjandi eru um veltu frá verslunum sem voru á markaði í maí jókst heildarumfang þeirra frá sama mánuði í fyrra, og á það bæði um dagvöruverslun og raftækjaverslun.

Aukin velta í nær öllum flokkum

Stuðst var við verðlagsmælingu Hagstofu Íslands við greininguna, en hún er gerð um miðjan maímánuð og því áður en Costco opnaði. Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitala Rannsóknaseturs verslunarinnar nær til lækkaði í árssamanburði í maí. Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og svo framvegis) var 13,7% meiri í maí samanborið við maí fyrir ári. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7% og velta farsíma um 2,8%.

Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingarvara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%.