Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júlí lækkaði um 0,02% milli mánaða. Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hefur vísitalan hækkað um 1,8% á síðastliðnu ári - en án húsnæðis hefur vísitalan lækkað um 3,1% eins og var gert ítarlega skil í Viðskiptablaði dagsins í dag. Vísitala neysluverðs mælir verðbreytingar á vörum og þjónustu sem eru á útgjaldalið heimilanna og er hún notuð til að mæla verðbólgu á Íslandi. Hagstofan tekur einnig saman tölur yfir helstu undirvísitölur vísitölu neysluverðs. Kennir þar margra grasa og hér verður farið yfir breytingar milli ára ef tekið er mið af undirvísitölunum í júlímánuði.

Hvað hefur lækkað í verði?

Þegar litið er til helstu undirvísitölur þá er ljóst að umtalsverðar verðlækkanir hafi verið á bæði vörum og þjónustu á síðastliðnu ári. Til að mynda vakti það athygli að verð á mat og drykkjarvörum hefur lækkað um 4,3% ef tekið er mið af júlímánuði í fyrra. Einnig hefur verð á fötum lækkað á milli ára eða um 1,9% samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Þá lækkaði til að mynda verð á karlmannsskóm um 12,7%.

Það vakti sérstaka athygli að verðið á farsímaþjónustu lækkaði um 37,1% á milli ára og sömuleiðis lækkaði verðið á símtækjum talsvert eða um 13,1%. Almennt lækkaði verðið á símaþjónustu um 13,1% á milli ára. Verð á internettengingu lækkaði um 13,5%. Verð á raftækjum lækkað jafnframt talsvert á milli tímabila eða um 25,8% og einnig lækkaði verðið á hljómflutningstækjum um 9,4% og tölvum um 10,8%. Bæði lækkaði verð á bílum, um 11,2%, og rekstur ökutækja almennt, um 3,4% á milli ára. Einnig lækkaði verðið á 95 oktana bensíni um 4,3% og dísel lækkaði um 3,9% á milli ára. Verð á hjólbörðum lækkaði umtalsvert samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands eða um 21,3%.

Hvað hefur hækkað?

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að verð á íbúðum hefur hækkað mikið á síðustu misserum, en kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hefur hækkað um 24,2% á milli ára. Almennt hefur húsnæði, hiti og rafmagn hækkað í verði um 14,4% á milli ára. Sorphreinsun hefur einnig hækkað um 15,9%. Það er dýrara að neita tóbaks í ár en það var á síðasta ári ef marka má verðmælingar Hagstofu Íslands. Verð á tóbaki hefur hækkað um 11,1% milli ára. Einnig hækkaði verðið á sígarettum um 4,6% og verð á vindlum sömuleiðis um 11,5%. Athygli vakti sömuleiðis að verð á leigubílaferðum hækkaði á milli ára, um 7,7%, sem og verð á strætóferðum.